Það var spennandi gegn Breiðabliki í 35 mínútur í kvöld. Selfoss hafði í fullu tré við toppliðið þann tíma, þrátt fyrir að ekki hafi allir helstu hestar átt sinn dag. Jafnt var í  hálfleik, 45-45, en Selfossliðið skoraði bara 19 stig allan seinni hálfleikinn, sem ekki kann góðri lukku að stýra.
Ekki er hægt að kenna varnarleiknum um, því gestirnir skoruðu þó bara 35 stig í seinni hálfleik, sem eru engin ósköp. Algert hrun varð hins vegar í leikskipulagi, engin stjórn eða yfirvegun í sóknarleiknum, bara hnoð og alger skortur á flæði varð til þess að tekin voru illa ígrunduð og erfið skot, meðan dauðafríir liðsfélagar í upplögðum færum biðu í ofvæni eftir sendingu sem ekki barst. Þrátt fyrir þetta dró ekki í sundur fyrr en 5 mínútur voru eftir. Lokatölur 64-80.
Það er ljóst að Selfossliðið getur vel verið samkeppnishæft í deildinni, en til þess að vinna leik þarf meiri einbeitingu og aga; að leikmenn horfi á og nýti styrkleika hvers annars, en dragi verulega úr gönuhlaupum í leiðangra sem þeir ráða ekki eða illa við. Þarna skildi á milli liðanna í kvöld. Blikarnir héldu haus, leituðu að besta færinu fyrir hvern leikmann fyrir sig og rúlluðu þessu heim í lokin.
Þessi leikur kennir sömu lexíu og tapið gegn Álftanesi sl. mánudag: Við erum ekkert slakari en bestu liðin meðan við höldum okkur við uppsett skipulag og spilum sem lið. Annars erum við slakasta liðið í deildinni, eins og taflan reyndar sýnir.
Það er mikið rými til framfara, við eigum hæfileikaríka leikmenn í öllum stöðum, en bæta þarf leikskilning og liðsvitund. Ef það tekst er beinn og breiður vegur framundan, og nóg eftir af mótinu til að hysja upp um sig.
Terrance Motley átti sinn besta leik hingað til í Selfossbúningnum á tímabilinu, skoraði 25 stig og hirti 16 fráköst og sýndi á köflum hversu öflugur hann getur orðið þegar formið verður orðið enn betra. Kristijan skoraði 9 stig og tók 5 fráköst, Sveinn Búi 7 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Ari 6 stig úr tveimur tilraunum, og hefði gjarnan mátt fá fleiri tækifæri til að skjóta á körfuna. Gunnar skoraði 5, Aljaz og Bradley 4 og Sigmar 2 stig.
Breiðablik vann þennan leik á sóknarfráköstum og mun betri skotnýtingu, fékk allt of mörg tækifæri til að ljúka hverri sókn.
ÁFRAM SELFOSS!!
Næst mætum við Hamri þriðjudaginn 16. febrúar á heimavelli í Gjánni.