Aðalfundur Selfoss-Körfu 2019 var haldinn í gærkveld. Þetta var fremur fámennur, en góðmennur og ljúfur fundur með hefðbundnum aðalfundarstörfum og ágætum umræðum um stöðu félagsins og framtíðarhorfur.

Helstu tíðindin eru annars vegar af reikningum félagsins og hins vegar af stjórnarkjöri, en eftir tvö samfelld stjórnarár urðu nú breytingar á skipan stjórnar. Sigríður Elín Sveinsdóttir og Blaka Hreggviðsdóttir stigu til hliðar en í þeirra stað voru kosnir í stjórn Trausti Jóhannsson og Þorbjörn Jónsson. Blaka hefur setið í stjórn síðan 2015 og Sigríður ári skemur og báðar hafa þær unnið ómetanlegt starf fyrir félagið. Fyrir hönd stjórnar og félagsmanna allra eru þeim hér með færðar innilegar þakkir fyrir sitt góða framlag hingað til, með vissu um að félagið mun njóta krafta þeirra áfram.

Stjórn er annars svo skipuð næsta árið:

Formaður: Gylfi Þorkelsson

Aðrir stjórnarmenn: Auður Rafnsdóttir, Eyþór Frímannsson, Jóhanna Hallbjörnsdóttir, Ólafur Valdín Halldórsson, Trausti Jóhannsson og Þorbjörn Jónsson. Ný stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Gjaldkeri kynnti og lagði fram til samþykktar skoðaðan ársreikning félagsins. Markverðustu tíðindin eru þau að fjórða árið í röð er hagnaður af reglulegri starfsemi félagsins, nú krónur 391.628,00. Hagnaður án fjármagnsliða var kr. 627.308,00. Þetta er nokkuð minni afgangur en í ársreikningi 2017 þegar sambærilegar tölur voru kr. 1.645.766,00 og kr. 1.988.316,00. Skýringa er fyrst og fremst að leita í stórauknu umfangi og kostnaði vegna nýrra keppnisliða í unglingaflokki, stúlknaflokki og drengjaflokki (2 lið), sem ferðast þurftu oft landið þvert og endilangt, auk dómarakostnaðar í heimaleikjum.

Rekstrartekjur árið 2018 voru kr. 20.434.312,00 og höfðu hækkað um rúm 23% frá fyrra ári, úr tæpum 16,6 millj. Að sama skapi hækkuðu rekstrargjöldin, úr 14,6 m. árið 2017 í 19,8 m. 2018, eða um rúm 35%.

Niðurstöðutala reikningsins, skuldir og eigið fé, er kr. 624.027,00 og lækkar sú tala um 21,5% frá árinu áður.

Að teknu tilliti til gríðarlegs vaxtar í starfsemi félagsins er það mikill léttir og fagnaðarefni að tekist hafi að skila rekstrinum réttum megin við núllið. Rennt var nokkuð blint í sjóinn fyrir yfirstandandi starfsár þegar tekið var upp samstarf við nágrannafélögin í Árnessýslu um rekstur keppnisliða í drengjaflokki og stúlknaflokki í akademíu félagsins og samreksturs unglingaflokks með Hamri og Hrunamönnum. Kostnaður við þessa starfsemi var hrein viðbót, þetta var nýlunda hjá félaginu og ekki á gamalli reynslu að byggja. Nú erum við reynslunni ríkari og getum betur metið horfurnar fyrir næsta keppnistímabil.

Í skýrslu formanns var farið all ítarlega yfir starfsemina, helstu viðburði og árangur. Þar var m.a. drepið á helstu áskorun komandi árs og ára, sem varð einnig meginstef í umræðum á fundinum: Nauðsyn þess að stækka stuðningsnetið; að fjölga sjálfboðaliðum, ekki síst við keppnisleiki og mótahald. Hinum mikla vexti á árinu, og gríðarlegri fjölgun leikja, fylgdi nefnilega ekki sambærileg fjölgun sjálfboðaliða, heldur var starfið borið uppi af sama t.t.l. fámenna kjarna fólks og áður. Stjórn félagsins vill þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn í vetur, frábært og óeigingjarnt starf og aldrei spurt um umbun af neinu tagi.

En þrátt fyrir þetta ómetanlega framlag vantar fleiri hendur og bent var á að sama framhald myndi óhjákvæmilega leiða til stöðnunar, sem er undanfari hnignunar.

Segja má að þetta hafi verið megin skilaboðin frá þessum aðalfundi.