Selfoss mætti Fjölni, á þeirra heimavelli, í 1. deild karla sl. föstudag. Fjölnir, sem er í 2. sæti deildarinnar, byrjaði með látum og skildi gestina, sem vissu varla hvaðan á þá stóð veðrið, eftir í rykinu. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 32-14, sem reyndist, þrátt fyrir ágæta atlögu, of breitt bil að brúa fyrir Selfossliðið og niðurstaðan því nokkuð öruggur sigur Fjölnis, 95-82.

Fjölnir kom vel gíraður í þennan leik og mikil stemmning innan liðsins, öllum körfum og leikfléttum vel fagnað á bekknum, allt fór ofan í körfuna, sama hvernig því var hent upp, og það tók fljótt allt bit úr okkar mönnum, vörnin var slök, menn voru skrefinu á eftir einn á einn og liðsvörnin sama marki brennd. Fjölnismenn gengu inn og út úr teignum að vild og skoruðu körfur í öllum regnbogans litum.

Jafnræði var með liðunum í 2. og 3. leikhluta, Falur farinn að nota bekkinn, og reyndar báðir þjálfararnir, en mestu munaði fyrir Selfyssinga þegar Marques Oliver fékk hvíld, en enginn réði við hann undir körfunum, 7 sóknarfráköst og 5 varin skot segja alla söguna um það. En sem sagt, Selfossliðið komst aðeins á bragðið og áttaði sig á því að það væri meira í það spunnið en upphafið sagði til um. Selfoss vann síðasta leikhlutann 17-25, komst næst í 4 stiga mun 80-76, en þá kom Oliver aftur til leiks og setti lokið haganlega á.

Oliver var bestur Fjölnismanna með 31 stig, 15 frk. 5 stoðsendingar og 5 varin skot á 33 mín. – 45 framlagspunkta. Róbert var líka mjög góður, hélt uppi miklum hraða í sóknarleiknum, skoraði 13 stig, gaf 11 stoðsendingar og bætti við 7 fráköstum. Sömu sögu má segja um Andrés Kristleifsson, 15 stig og fáránleg skotnýting á 18 mínútum – 18 framlagsstig. Srdan Stojanovic var erfiður ljár í þúfu, sérstaklega í upphafi leiks þegar hann hitti úr öllu, með 18 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.

Marvin Smith Jr. var bestur í Selfossliðinu með 34 stig og 7 fráköst, mjög góða skotnýtingu. Snjólfur setti 18 stig, Hlynur Hreinsson 9 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Bergvin gerði vel með 6 stig, 4 fráköst og 3 varin skot og Björn Ásgeir skoraði sömuleiðis 6 stig og tók 4 fráköst. Svavar Ingi skoraði 4 stig, Ari 3 og Hlynur Freyr 2 stig.

Enn einu sinni mætti Selfossliðið illa áttað til leiks og lét vaða yfir sig strax í upphafi. Þó það hafi vissulega komið til baka og veitt ágæta samkeppni á kafla var það ekki nóg. Það vantar neistann til að kveikja baráttuþrekið og liðsandann, og skýrari hlutverkaskiptingu, til að standast betri liðunum í deildinni snúning. Við erum búin að tapa of mörgum leikjum í vetur með litlum mun út af hálfkáki og hiki. Gaman væri nú að ljúka tímabilinu seglum þöndum, með alvöru stormbeljanda, því allt er léttara og skemmtilegra þegar lið spila „með hjartanu“, sýna tilfinningar og samheldni. Þá verða líka áhorfendur og stuðningsmenn kátir, burtséð frá úrslitum, og yfirgefa völlinn með bros á vör. Þið getið þetta, strákar!!

Nú eru 3 leikir eftir. Fyrst 2 heimaleikir, gegn Snæfelli 1. mars, þá Sindra 8. mars og að lokum útileikur gegn Hetti 15. mars. Alla þessa leiki getur liðið unnið með samstilltu átaki.

ÁFRAM SELFOSS!!!