Síðastliðið þriðjudagskvöld tók b-lið drengjaflokks á móti Grindavík. Fyrir leikinn höfðu allir leikir vetrarins tapast en síðustu leikir í deildinni hafa lofað góðu og strákarnir verið að bæta sig jafnt og þétt. Strákarnir byrjuðu leikinn af krafti og náðu strax forystu á upphafsmínútum leiksins. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan orðin 23-13. Eftir erfiðar fyrstu mínútur í öðrum leikhluta náðu strákarnir að rífa sig aftur í gang og fóru inn í hálfleikinn með örugga forystu, 43-31 var staðan. Eftir hálfleik var hins vegar full mikil værukærð yfir okkar mönnum og gengu gestirnir frá Grindavík á lagið í þriðja leikhluta og þegar 8 mínútur voru búnar af leikhlutanum komust þeir yfir í fyrsta skipti frá því á 2. mínútu leiksins. Eftir þetta skiptust liðin nokkuð á að skora þangað til að 4 mínútur voru eftir af leiknum að okkar menn virtust ætla að slíta sig aðeins frá gestunum og náðu þeir að komast í 11 stiga forystu aftur þegar mínúta var eftir af leiknum. Gestirnir gáfust hins vegar aldrei upp og skoruðu þeir síðustu 8 stigin. Okkar strákar náðu þó að standast meira áhlaup og stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar en leikurinn endaði 88-85 FSu í vil.

Stigaskor FSu: Simmi 25 stig (7 þristar), Jakob 20 stig, Sigurður Dagur 18 stig, Sævar 9 stig (allt þristar), Arnór 8 stig, Anthony 6 stig, Guðjón 2 stig.