Selfoss fékk Hött frá Egilsstöðum í heimsókn í kvöld þegar liðin mættust í 2. umferð 1. deildarinnar. Heimamenn spiluðu án Gerald Robinson, en hann er frá í næstu leikjum vegna támeiðslna. Fyrir utan fyrstu þrjú stigin í leiknum, sem heimamenn skoruðu, þá voru það gestirnir sem stjórnuðu gangi leiks og voru fljótir að svara öllum áhlaupum Selfoss. Höttur hélt Selfyssingum í hæfilegri fjarlægð frá byrjun til enda og uppskar verðskuldaðan sigur, 87-104.

Gestirnir í Hetti byrjuðu leikinn að krafti og komust fljótt í stöðuna 3-11 og leiddu í lok 1. leikhluta með 6 stigum, 18-24. Annar leikhluti var meira spennandi þar sem heimamenn náðu aðeins að minnka muninn og varð hann minnstur þegar þeir náðu að minnka muninn í 1 stig. Hattarmenn kláruðu leikhlutann á vítalínunni og staðan 38-41 þegar liðin gengu inn í hálfleik. Gestirnir byrjuðu 3. leikhlutann betur og náðu að halda heimamönnum í 7-10 stiga fjarlægð allan leikhlutann. Þeir héldu uppteknum hætti í 4. leikhluta og enduðu á að vinna leikinn 87-104.

Ef rýnt er í tölfræðina þá eru bæði lið með mjög svipaðar tölur í mörgum tölfræðiþáttum; svipuð fráköst, stoðsetningar, tapaðir boltar og stolnir bolta. En það sem skilur liðin af var skotnýtingin, en lið Hattar nýtti skotin sín töluvert betur, með 57% nýtingu á móti 43% heimamanna. Liðsstemningin var mun betri í liði gestanna og voru leikmenn duglegir að hvetja sína menn áfram, frá byrjun til enda. Eitthvað sem Selfyssingar mega taka til fyrirmyndar.

Fjórmenningarnir Arturo Rodriguez (23 stig), Timothy Guers (19 stig), Juan Navarro (15 stig) og David Ramos (20 stig) dreifðu álaginu vel í liði gestanna með samanlögð 77 stig og náðu allir leikmenn liðsins sem komu inná að skila inn stigum fyrir liðið.

Í liði heimanna var Trevon Evans atkvæðamestur með 38 stig og 9 stoðsendingar. Gasper Rojko og Óli Gunnar Gestsson skiluðu einnig góðu framlagi, Rojko með 23 stig og 11 fráköst og Óli Gunnar með 14 stig og 10 fráköst. Vito Smojer skilaði 7 stigum, Björn Ásgeir Ásgeirsson 3 stigum og Ísar Freyr Jónasson 2 stigum.

Næsti leikur Selfoss er föstudaginn 8. október gegn ÍA á Akranesi.

Áfram Selfoss!

Myndir úr leiknum