Selfossliðið hafði, af faraldsfræðilegum ástæðum, ekki spilað leik síðan 4. janúar þegar það mætti Álftnesingum í forsetahöllinni í gær. Því var forvitnilegt að sjá í hvernig standi leikmenn kæmu úr hléinu, og væntingarnar óneitanlega beggja blands. Álftanes hafði að auki bætt sterkum leikmanni, Sinisa Bilic, í þéttan leikmannahópinn.

Leikurinn var nokkuð jafn lengi framan af. Álftnesingar alltaf með frumkvæðið en Selfoss fylgdi fast í kjölfarið. Einu stigi munaði eftir fyrsta hluta, 21-20. Um miðjan annan hluta leiddi Selfoss með þremur, 31-34, en heimamenn sneru taflinu aftur sér í hag og voru fimm stigum yfir í hlfláeik, 47-42.

Þriðji leikhlutinn var Álftnesinga, munurinn óx og fór mest í 12 stig en staðan 75-64 eftir 30 mínútur. Það tók hins vegar Selfyssinga aðeins 3 mínútur í fjórða leikhluta að jafna leikinn og þeir komust yfir í fyrsta skipti í langan tíma á 35. mínútu, 79-80. Selfossliðið gerði svo vel síðustu mínúturnar, „hélt haus“ og bilið breikkaði, 84-92 þegar mínúta var eftir og lokatölur, eins og fyrr sagði, 87-94.

Eysteinn Bjarni var bestur Álftnesinga eins og oftast áður, frábær leikmaður og fjölhæfur, með 20 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar, 28 framlagspunkta. Cedrick Bowen setti 22 stig fyrir forsetaembættið, Sinisa Bilic 12, Ragnar Jósef 10 og Dino Stipcic 8, en bætti við 11 stoðsendingum og 9 fráköstum, 20 framlagspunktum.

Trevon var hreint út sagt frábær og fór fyrir okkar mönnum. Hann var eins og kálfi sleppt út að vori, ekki spilað leik síðan um miðjan desember og naut þess greinilega að vera kominn aftur. Hann skoraði 43 stig, skotnýtingin 61%, tók 5 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 6 boltum, 43 framlagspunktar, takk fyrir túkall! Gerald var líka framúrskarandi með 17 sig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar, 28 framlagsstig. Verður forvitnilegt að vita hvenær hann kemst  inn í útreikninga tölfræðiforritsins, því hann er langfrákastahæsti leikmaðurinn í deildinni, þó forritið hunsi þá staðreynd ennþá.

Gasper stóð fyrir sínu með 12 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar og sérlega gaman var að sjá Ísar Frey kominn til baka eftir meiðsli. Ísar spilaði tæpar 33 mínútur og skilaði góðu verki, 12 stigum og 5 fráköstum með 83% skotnýtingu, +16 og 16 framlagspunkta. Sama má segja um Óla Gunnar sem er að ná sér aftur á strik, 5 fráköst, 4 stig og +9 á þeim rúmu 11 mínútum sem hann spilaði. Þeim mun fara fjölgandi.

Selfossliðið er nú í 6. sæti deildarinnar með 16 stig (8/7), en ekki er alveg að marka stöðuna, því liðin hafa leikið mismarga leiki. Sindri er t.d. í 4. sæti með 20 stig (10/8) en hefur tapað einum leik fleira en Selfoss.

En þetta skýrist allt á næstunni, Selfoss á þétta dagskrá framundan, 3 leiki á 8 dögum, og getur styrkt vonir um sæti í úrslitakeppni með sigri í einhverjum af þeim.

TÖLFRÆÐI LEIKSINS

STAÐAN Í DEILDINNI

ÁFRAM SELFOSS!!!