Selfoss gerði sér góða ferð í Grafarvoginn sl. föstudag þegar liðið mætti Fjölni í fimmta leik liðsins á þessu tímabili. Selfoss var með yfirhöndina allan leikinn og endaði á að vinna 97-104.

Eftir slæmt tap á móti Sindra í síðasta deilarleik var allt annað lið sem mætti til leiks á móti Fjölni. Liðið spilaði vel á báðum endum vallarins strax í byrjun og var í stöðunni 12-26 eftir 1. leikhluta. Liðið hélt uppteknum hætti í 2. leikhluta náðu fljótt að komast í 23 stiga forystu í stöðunni 12-35, sem var mesti munur liðanna í leiknum. Heimamenn svöruðu þó á móti og náðu að minnka muninn niður í 13 stig þegar liðin fóru inn í hálfleikinn. Fjölnir héldu áfram að berjast fyrir lífi sínu í leiknum og náðu að minnka muninn niður í 5 stig í lok 3. leikhluta. Góð tilraun heimamanna dugði þó ekki til, Selfoss hélt forystunni út leikinn og uppskáru góðan 7 stiga sigur, 97-104.

Atkvæðamestur í liði Selfyssinga var Trevon Evans með 30 stig og 10 stoðsendingar. Gasper Rojko var með 21 stig og 12 fráköst, Vito Smojer með 19 stig, Styrmir Jónasson með 12 stig, Óli Gunnar Gestsson með 8 stig, Arnar Geir Líndal með 7 stig, Ísar Freyr Jónasson með 5 stig og Sigmar Jóhann Bjarnason með 2 stig.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur í deildinni á föstudaginn kemur gegn Haukum.  Liðið mætir svo Íslandsmeisturm Þórs í VÍS-bikarkeppninni mánudaginn 1. nóvember. Leikurinn verður spilaður í Vallaskóla og byrjar hann kl. 19:15.