Selfoss Karfa á stóran hóp iðkenda í 8. flokki pilta og teflir fram tveimur liðum í keppni. Um síðustu helgi var einmitt umferð hjá þeim á Íslandsmótinu, A-liðið keppti á heimavelli í Gjánni en B-liðið í Smáranum í Kópavogi.

Það er gaman að segja frá því að bæði liðin höfðu unnið sitt mót í síðustu umferð og færst upp um riðil. Það var því spenningur í mannskapnum að sjá hvernig liðin myndu standa sig gegn sterkari andstæðingum, en töluverður getumunur getur verið milli riðlanna og því svolítið eins og að stökkva út í djúpu laugina að fara upp um riðil og alls ekki sjálfgefið að liðin nái að halda sér á floti þar í fyrstu atrennu.

Skemmst er frá því að segja að B-liðið átti við ramman reip að draga og tapaði sínum leikjum, en strákarnir eru reynslunni ríkari og vita nú hvað þarf til að halda sér uppi. Þetta eru keppnismenn sem láta smávægilegt mótlæti ekki buga sig, heldur æfa af enn meiri krafti og koma tvíefldir til leiks næst.

A-liðinu gekk betur, enda á heimavelli. Liðið vann tvo leiki en tapaði hinum tveimur, gegn liðunum sem talin hafa verið sterkust í þessum aldursflokki, með litlum mun, öðrum með 3 stigum en hinum með 4. Selfoss A spilar því áfram í A riðli í næstu umferð og er liðið farið að narta í hælana á þeim allra bestu.

Þegar á allt er litið er virkilega gaman að fylgjast með framförunum hjá öllum hópnum og framtíðin sannarlega björt hjá félaginu með alla þessa snillinga innanborðs.

Á meðfylgjandi mynd er B liðið kokhraust eftir keppni helgarinnar. Upp með hökuna, út með kassann og áfram gakk! ÁFRAM SELFOSS!!!