Selfoss mætti Skallagrími í Gjánni í gærkvöldi í 17. umferð 1. deildar karla. Selfossliðið var komið í kjörstöðu í lokafjórðungi en missti einbeitinguna og Skallagrímur gekk á lagið, saxaði niður 12 stiga forystu síðustu 6 mínúturnar og hrósaði sigri að lokum, 88-90.

Selfoss byrjaði illa og Skallagrímur leiddi með 10 stigum, 13-23, að loknum fyrsta fjórðungi. Selfossliðið náði smám saman vopnum sínum í öðrum leikhluta, komst yfir eftir 18 mínútur og leiddi með einu í hálfleik, 43-42. Áfram hélt Selfoss frumkvæðinu í þriðja hluta og munurinn 6 stig fyrir lokaátökin, 68-62, og fór mest í 12 stig, 80-68, á 35. mínútu og liðið að spila vel, varnarleikurinn ákafur og góður og fín stemmning bæði í liðinu og í stúkunni. En þá komu nokkrar slæmar ákvarðanir, tapaðir boltar og ótímabær skot, og gestirnir refsuðu hratt, negldu niður þristum í hröðum sóknum og forskotið gufaði upp jafn hratt og dalalæða í morgunsól. Skallagrímur jafnaði 82-82 en Arnaldur kveikti aftur neistann með flottum þristi, 85-82. Hann varð þó ekki að báli og Milorad Sedlarevic tryggði Borgnesingum tveggja stiga sigur af öryggi frá vítalínunni þegar 5,1 sek var eftir. Lokaskot Selfoss var slakt, enda ekki leikhlé í boði til að setja upp vænlega áætlun.

Þetta var sem sagt spennandi og skemmtilegur leikur, og þó alltaf sé skemmtilegra að vinna, þá verður að gleðjast yfir því að liðið okkar var líflegra og baráttuglaðara en það hefur oft verið. Langflestir voru atorkusamir og gáfu af sér,  er ekki „jákvæð orka“ tískuhugtakið nútildags? Takk fyrir skemmtunina, strákar, og ef þið einbeitið ykkur allir að því að ljúka keppnistímabilinu með þessum hætti verður allt léttara og skemmtilegra, og til meiri framfara fyrir alla, ykkur sjálfa, liðið og félagið. Burtséð frá úrslitum leikja. Þið eruð barasta fjandi góðir í körfu og megið alveg trúa því sjálfir.

Bandaríski bakvörðurinn í liði Skallagríms, Keith Jordan Jr., var ansi erfiður við að eiga. Þetta er kraftmikill leikmaður sem lætur til sín taka á öllum vígstöðvum, í vörn og sókn, fráköstum, gegnumbrotum, skotum utan af velli og matar félaga sína. Hann skoraði 33 stig, tók 13 fráköst og stal 5 boltum, svo eitthvað sé nefnt, skilaði 44 framlagspunktum. Fyrrnefndur Sedlarevic átti fínan dag með 21 stig og hæsta +/- gildi Skallagríms. Bræðurnir Björgvin Hafþór og Bergþór Ægir eru betri en enginn og báðir t.d. frábærir varnarmenn og fyrirliðinn Davíð Guðmundsson, sem af einhverjum ástæðum heitir Lára Magnúsdóttir á leikmannalista Skallagríms í FIBA Organizer, er alveg baneitraður fyrir utan þriggjastigalínuna, eins og alþjóð veit, og hann negldi einmitt niður þeim þristum í endurkomu Skallanna sem kveiktu í liðinu.

Í Selfossliðinu var Arnaldur Grímsson jafnbestur, sjóðheitur af þriggjastigafæri (62% nýting), með flotta tvöfalda tvennu, 21 stig og 10 fráköst og hæsta framlag liðsmanna. Birkir Hrafn kom næstur með 18 stig og stórmagnaðan seinni hálfleik, 5/5 í styttri skotum og setti að auki 2 þrista, 16 framlagspunktar, og gaf hinum eldri og reyndari á vellinum síst eftir, 16 ára guttinn. Gerald skoraði 17 stig og tók 4 fráköst, Ísar Freyr var alveg magnaður, varnarleikurinn til útflutnings, skotnýtingin frábær og 9 fráköst gáfu 17 framlagspunkta. Ísak byrjaði ekkert allt of vel en vaknaði heldur betur þegar á leið, setti 13 stig og gældi við tvennuna með 9 stoðsendingum. Kennedy skoraði 8 stig og tók 5 fráköst, en hefur oft látið meira fyrir sér fara. Styrmir skoraði 3 stig og gaf 3 stoðsendingar á sínum 15 mínútum.

Eftir leikinn er Selfoss áfram í 4. sæti en Skallagrímur komst upp að hlið Selfyssinga með sigrinum. Fimmlið eru í einum hnapp í baráttu um 4. og 5. sæti og þar með keppnisrétt í úrslitum. Sindri nokkuð öruggur þar fyrir ofan (12/5). Selfoss og Skallagrímur eru með hlutfallið 8/9, Fjölnir 7/9 og bæði Hrunamenn og Ármann 7/10. Þessi lið eru nokkuð jöfn og geta unnið hvert annað, þannig að þriðja og síðasta umferð mótsins gæti orðið spennandi hvað þetta varðar.

Næsti leikur Selfoss er útileikur gegn Ármenningum föstudaginn 3. febrúar, og það er jafnframt síðasti leikur liðsins í 2. umferð. Þriðja umferðin hefst svo með útileik gegn Fjölni mánudaginn 6. febrúar.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni