Selfoss lék gegn Hamri í 1. deild karla í gær. Hamar var sterkari aðilinn og vann leikinn örugglega með 9 stigum, 78-87 eftir að hafa verið mest 22 stigum yfir um miðjan þriðja leikhluta.

Liðin voru jöfn framan af en í stöðunni 22-23 á 13. mínútu settu gestirnir 2 þrista í röð og slitu sig aðeins frá. Í hálfleik munaði 13 stigum, 37-50 og seinni hálfleikur byrjaði ekki gæfulega fyrir okkar menn, því bilið breikkaði stöðugt þar til það náði hámarki eftir 26 mínutur, eins og fyrr sagði. En þá breyttist andinn í Selfossstrákum og óþarfa virðing fyrir þéttskipuðu reynsluboltaliði nágrannanna minnkaði, þeir fóru að bíta meira frá sér og spila fastara. Þetta skilaði þeim árangri að munurinn helmingaðist og vel ríflega það, varð minnstur 8 stig í lokin en Jose Medina Aldana, aðal drif- og skrautfjöður Hamars, skoraði úr víti í lokin svo niðurstaðan varð 9 stiga tap.

Það gáfust nokkrir sjensar að hleypa meiri spennu í leikinn síðustu mínúturnar en til þess hefðu nokkrar ágætar skottilraunir þurft að rata rétta leið. Sem þær gerðu ekki, og Hamar vann sanngjarnan sigur.

Fyrrnefndur Aldana var og er allt í öllu í leik Hamars. Hann skoraði 30 stig og óneitanlega þægilegt að hafa leikmann sem getur skorað þriggjastigakörfur nánast frá miðju þegar á þarf að halda, auk þess að vera mjög laginn að mata félaga sína, eins og 9 stoðsendingar bera vitni. Raggi Nat. er einnig erfiður ljár í þúfu, fyrir stráka sem ná honum upp í nafla. Hann skoraði 16 stig, tók 18 fráköst, varði 4 skot og var framlagshæstur Hvergerðinga. Björn Ásgeir átti skínandi leik með 15 stig og Bandaríkjamaðurinn Howard skoraði 13.

Gerald fór fyrir strákastóði Selfyssinga með 27 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar, 8 fiskaðar villur og 32 framlagspunkta. Kennedy skoraði 18 og tók 5 fráköst, Arnaldur skoraði 14 stig og var frákastahæstur með 8, Styrmir Jónasar skoraði 9 stig, Ísak Júlíus 8 og gaf 8 stoðsendingar og Birkir Hrafn skoraði 2 stig. Það var skarð fyrir skildi að Ísar Freyr var ekki með vegna meiðsla, en hann er orðinn einn okkar öflugasti varnarmaður. Einnig var 11. flokkur að spila „fyrir sunnan“ á sama tíma og því þykkur bunki ónotaður í búningatöskunni.

Það er ýmislegt jákvætt hægt að taka út úr þessum leik. Liðin eru á ólíkum stað, Hamar búinn að safna í öflugt lið til að fara upp um deild en Selfoss smá saman að tína inn leikmenn úr unglingastarfinu til að leggja grunn að fyrirsjáanlegri framtíð. Það var ágætt að halda Hamri undir 90 stigum, liði sem skorar 100 stig að meðaltali, og er vísbending um að vörnin hafi verið þokkaleg, sérstaklega í seinni hálfleik þegar gestirnir skoruðu bara 37 stig.

Á góðri vörn þarf að halda í næsta leik á föstudaginn kemur gegn Skallagrími, heima í Gjánni, en hann er á töluverðu skriði eftir að hafa bætt við sig mannskap, eins og flest liðin í deildinni hafa reyndar gert.

ÁFRAM SELFOSS!!!