Selfoss hóf tímabilið í 1. deild karla hjá nágrönnum sínum í Hveragerði í kvöld. Selfoss hafði yfirhöndina meira og minna allan leikinn en Hamar náði góðum skorpum og minnkaði muninn með mikilli baráttu. Það dugði þeim þó ekki og Selfoss nældi í kærkominn 13 stiga sigur í fyrsta leik, 80-93.

Hamar var yfir 2-1 en síðan ekki söguna meir. Selfoss náði fljótt 10 stiga forystu, 7-17 og leiddi 13-20 eftir fyrsta hluta. Seint í 2. leikhluta varð munurinn á liðunum mestur 18 stig, 25-43, en Hamar barðist af krafti og pressaði stíft sem gaf þeim nokkrar auðveldar körfur og minnkaði muninn í 6 stig, 51-57, í þriðja leikhluta en Selfoss bætti í og leiddi 61-73 að honum loknum. Í fjórða leikhluta náði Selfoss muninum strax upp í 14 stig, en þá kom aftur góður kafli hjá Hamri sem saxaði muninn enn á ný í 6 stig og spenna hlaupin í leikinn. Selfyssingar héldu þó haus og kláruðu dæmið með 13 stiga sigri.

Hamar vantaði bandaríska leikmanninn sinn, sem ekki er kominn með leikheimild, og spilaði á 10 mönnum sem allir komu við sögu, sumir bráðungir og efnilegir heimastrákar. Burðarásarnir í liðinu eru Pálmi Geir, Oddur Ólafs og Kristijan Vladovic, sem gladdi iðulega stuðningsmenn Selfossliðsins í Gjánni síðustu tvö keppnistímabil. Pálmi var magnaður með 27 stig og 13 fráköst, Kristijan sömuleiðis með 20 stig og 11 stoðsendingar og Oddur var kjölfestan með 8 stig, 7 fráköst og 4 stoðseningar. Þá gladdi Haukur Davíðsson áhorfendur með flottum leik og skoraði 14 stig og nýtti 60% skota. Sannarlega bráðefnilegur strákur þar á ferðinni.

Í Selfossliðinu var Trevon Evans stigahæstur með 27 stig og skilaði sínu með mikilvægum körfum í lokafjórðungnum. Hann bætti við 9 stoðsendingum og 5 fráköstum, og ef hann nær að stilla betur af þriggjastigamiðið verður hann erfiður ljár í þúfu í vetur. Gasper Rojko skoraði 20 stig og var með afbragðsnýtingu, 5 fráköst og hæsta framlagið, 25 punkta. Gerald Robinson var traustur og yfirvegaður, skoraði 14 stig og tók 17 fráköst, og kemur með þá reynslu og ró sem nauðsynleg er í svo ungu liði. Óli Gunnar Gestsson skoraði 13 og nýtti sín færi frábærlega, en lenti í villuvandræðum sem hamlaði aðeins hans leik.  Vito Smojver skoraði 13 stig og stóð sig með prýði og sömuleiðis Ísar Freyr Jónasson sem skoraði 4 sig og tók 7 fráköst og spilaði grimma og góða vörn. Gabriel Boama bætti við þeim 2 stigum sem upp á vantar, en þessir  fjórir síðasttöldu eru allir innan við tvítugt og lykilmenn í unglingaflokksliðinu okkar.

Þetta var auðvitað fyrsti leikur og alveg nýtt lið sem slípa þarf betur saman, margt fór úrskeiðis vegna þess að leikmenn eru að læra hver inn á annan, og þar eru efst á blaði 22 tapaðir boltar, sem verður að kippa í liðinn ef liðið ætlar að standa eitthvað í Hetti á heimavelli í Gjánni næstkomandi föstudag. 

En sigur er sigur og alltaf gott veganseti að vinna fyrsta leik.

Áfram Selfoss!!!

Myndasafn 

Tölfræðin