Einir fimm leikir voru á dagskrá hjá félaginu um og kringum síðust helgi og út frá hefðbundnum stöðlum varð uppskeran heldur rýr, eða 0/5!!! En hér er ekki tjaldað til einnar nætur heldur unnið að langtímamarkmiðum svo enginn fer á límingunum hvort heldur einn leikur tapast eða vinnst.

Á föstudagskvöld mætti Selfoss Álftnesingum í 1. deild karla og tapaði „í bragðdaufum leik“ eins og sagt hefur verið frá.

Á laugardag mætti Selfoss a taplausu ÍR liði í 10. flokki drengja hér heima í Gjánni. ÍR hrósaði sigri 68-70 í spennandi leik, en Selfossliðið hitti ekki úr opnu þriggjastigaskoti til að tryggja sigurinn á lokasekúndunum.

Tveir leikir voru á sunnudaginn. Í Borgarnesi mætti Selfoss b Skallagrími í 10. flokki drengja. Skallagrímur var sterkari aðilinn í leiknum og vann nokkuð öruggan 12 stiga sigur, 47-35.

Unglingaflokkur Selfoss/Hamars mætti Breiðabliki í  Smáranum og varð að gera sér að góðu 10 stiga tap, 95-85.

Að lokum var á mánudagskvöldið heimaleikur hjá liði Selfoss/Hamars/Hrunamanna í 10. flokki stúlkna. ÍR liðið mætti ákveðið til leiks og náði góðu forskoti strax í fyrsta fjórðungi. Heimastelpur hresstust til muna í öðrum leikhluta og minnkuðu bilið í 5 stig, 20-25, og áttu síðan góða tilraun til að komast enn nær, en ÍR stóðst áhlaupið og bilið breikkaði aftur fyrir hálfleik, og vann að lokum 13 stiga sigur, 59-72.

Okkar lið skoraði í þessum leik jafn mörg stig og þegar það vann Val örugglega í síðasta heimaleik, en breiddin í ÍR liðinu er meiri en hjá Val og því reyndi nú meira á varnarleikinn. Það er einmitt varnarleikurinn sem liðið þarf að einblína á næstu vikur og mánuði, ekki síst liðsvörnina, en ÍR fékk of mikið af opnum skotum í teignum. Þetta er helsti vandinn, því stelpurnar æfa saman aðeins einu sinni í viku og tækifærin til að stilla saman strengina því af skornum skammti. Ekkert er samt ómögulegt og stelpurnar bæði efnilegar og fullar áhuga og munu bæta sig jafnt og þétt.

Framundan hjá þeim er leikur gegn Haukum í Hafnarfirði, laugardaginn 18. desember kl. 12:30 ÁFRAM STELPUR!!!