Það vantaði herslumuninn að Selfossliðið þjarmaði enn betur að toppliði Hamars sl. föstudagskvöld í Hveragerði – og stæli jafnvel sigrinum. Slakur fyrsti leikhluti hjá strákunum okkar, ásamt nokkrum óyfirveguðum sóknum og ágætum skotum sem vildu ekki ofan í á ögurstundu í fjórða leikhluta urðu liðinu að falli. Hamar vann 82-75 og heldur taplaus toppsætinu í deildinni.

Eins og venjulega byrjuðum við ekki nógu vel, vantaði það blóð á tennurnar í upphafi sem var til staðar gegn Tindastóli um daginn og Hamar var 14 stigum yfir eftir fyrsta hluta. En leikur okkar manna batnaði þegar á leið, 2. og 4. leikhluti voru í jafnvægi en 3. hluti var sérstaklega góður hjá Selfossliðinu, 18-28, og undir lok hans jafnaði Selfoss 60-60. Ekki tókst að fylgja því eftir og Hamar leiddi til loka, undir styrkri stjórn Everage. Einbeitingarleysi og nokkrar slæmar sóknir í röð í 4. hluta hleypti Hamri í 10 stiga forystu sem ekki tókst að brúa. En ýmis batamerki er að sjá á liðinu. Þetta er allt að koma, stöðug framför.

Eins og fyrr fór Everage Richardson fyrir Hamarsliðinu. Hann tók 40% allra skota liðsins, skoraði 32 stig og hirti að auki 12 fráköst. Pálmi Geir var líka góður með 19 stig, 4 fráköst og afbragðsskotnýtingu. Danero Thomas og Ragnar Jósef komust líka þokkalega frá sínu.

Christian Cunningham hélt uppteknum hætti og leiddi Selfossliðið með góðu fordæmi, en hann spilaði frábæran varnarleik, jafnt í teignum gegn stórum mönnum sem bakvarðasveit Hamars, varði fjölda skota, m.a. tvær þriggjastigatilraunir. Það er hrein unun að fylgjast með fórnfýsi og baráttuanda þessa eðalmennis. Christo skoraði 23 stig, tók a.m.k. 15 fráköst og varði a.m.k. 4 skot, 33 í framlag segir tölfræðiskýrslan. Ragnar Magni var góður með 17 stig (45% þriggjastiganýting) og 4 fráköst. Rhys sýndi í leiknum hvers má vænta af honum, 12 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar, og kom næstur Christo með 15 í framlag. Mikið mæddi á Kristijan í stöðu leikstjórnanda, hann átti góða spretti bæði í sókn og vörn, skoraði 9 stig, gaf 7 stoðasendingar og tók 4 fráköst. Maciek átti sömuleiðis fína kafla með 8 stig og 8 fráköst. Svavar Ingi (4) og Alex (2) bættu við þeim stigum sem upp á vantar en allt liðið á hrós skilið fyrir framgöngu sína.

Tölfræðin /Statistics

Tilþrif úr leiknum / Highlights from the game