Selfoss mætti Tindastóli í gærkveld á heimavelli sínum í Geysisbikarnum. Ekki voru veðbankar hliðhollir Selfyssingum fyrir leik, enda tefla Stólarnir fram einu besta liðinu í Dómínósdeildinni en Selfoss er að stórum hluta unglingaflokkslið sem á frekar á brattann að sækja í 1. deild. Þetta varð þó hörkuleikur og þó gestirnir úr Skagafirði hafi vissulega unnið öruggan 15 stiga sigur, 68-83, þá þurftu þeir að hafa fyrir hlutunum.

Selfossliðið vann bæði fyrsta og fjórða leikhluta naumlega en Tindastóll gerði í öðrum hluta það sem dugði til sigurs, vann hann með 15 stiga mun. Jafnræði var allan fyrsta hlutann en að honum loknum leiddi heimaliðið 18-15. Eftir miðjan annan leikhluta náðu Stólarnir 12 stiga forystu og héldu henni í hálfleik. Mestur varð munurinn á liðunum 17 stig í þriðja hluta en fyrir lokafjórðunginn leiddu gestirnir með 16 stigum, 47-63. Selfoss minnkaði muninn í 11 stig, 61-72 þegar 3 mínútur voru eftir en þá skoruðu gestirnir 5 stig í röð og tryggðu stöðu sína endanlega.

Það má segja að Selfossliðið hafi í sumu verið sjálfu sér verst í þessum leik. Heilir 34 tapaðir boltar og 22 sóknarfráköst til andstæðinganna eru ávísun á ófarir. Vissulega er við fullhraust heljarmenni í liði Tindastóls að etja og okkar menn flestir eins og feyskin strá í vindi gegn slíkum fullsæmdum Grettisbelstismönnum, en stundum gleymdist líka að stíga út. Og þó Baldur hafi pressað stíft allan völlinn, þríyfirdekkað okkar leikstjórnanda í innköstum, og stolið mörgum boltum þannig, eða knúið fram slakar sendingar, þá var líka mikið um óþarfa klaufaskap og mistök sem að öllu jöfnu eiga ekki að sjást, nema kannski einu sinni í leik. Eitthvert stress og reynsluleysi, segjum við okkar unga liði til varnar. EF þessi „sjálfsköpuðu“ mistök hefðu verið skorin niður, þó ekki væri nema um helming, hvað hefði þá gerst? Sem sagt: Að tapa fyrir góðu úrvalsdeildarliði með „aðeins“ 15 stigum, þrátt fyrir 34 tapaða bolta (sóknarfráköstin mætti nefna líka), er eiginlega með ólíkindum. Slíkar tölur ættu að öllu eðlilegu leiða stórtaps.

Hvað var það þá? Jú, einfaldlega hjartað og sálin. Menn lögðu sig alla fram og gáfust ekki upp, þó það hefði kannski legið beinast við, eftir að henda boltanum útaf og í hendur andstæðinganna aftur og aftur. Fyrir hugrekkið fær liðið rós í hnappagatið og með slíkt viðhorf eru því allir vegir færir í framtíðinni. Takk strákar, þetta var gaman að sjá.

Fyrir Stólana var Jaka Brodnik góður með 25 stig og 7 fráköst og Sinisa Bilic sömuleiðis, en hann setti nokkra leiðinda þrista (fyrir okkur) á versta tíma, og skoraði 17 stig. Friðrik Þór var mjög mjög erfiður ljár í þúfu með sínum ágenga varnarleik. Annars var leiktíma gestanna nokkuð bróðurlega skipt milli 10 leikmanna.

Í Selfossliðinu bar Christian Cunningham af, sérstaklega í seinni hálfleik þegar hann lét meira til sín taka í sóknarleiknum. En varnarleikinn og dugnaðinn í þessum eðalpilti er hreint út sagt dásamlegt að fylgjast með og hann er sannarlega sú fyrirmynd sem liðið þarf á að halda í sínum eina atvinnumanni. Ekki er það víst alltaf raunin, því miður, en hér skortir ekkert á. Christo skoraði 17 stig, tók 20 fráköst, varði 6 skot og skilaði 33 framlagsstigum. Kristijan var stigahæstur í liðinu með 20 stig og fína nýtingu, auk 5 frákasta og Maciek átti fínan dag, 10 stig og 6 fráköst. Aðrir leikmenn skoruðu minna en það var sama hver kom inn á, allir lögðu fram alla sína orku.

Tölfræðin

Næsti leikur liðsins er í deildinni nk. föstudag, gegn ógnarsterku liði Hamars, í Hveragerði kl. 19:15