Selfoss/Hamar mætti KR í hörkuleik í unglingaflokki í Gjánni í kvöld. Liðin skiptust á forystunni langt fram í fjórða leikhluta en þá seig heimaliðið framúr og gestirnir náðu ekki að brúa bilið, heldur jókst munurinn smávægilega og endaði í 13 stiga sigri, 89-76.

Þetta var skemmtileg viðureign tveggja góðra liða, þó vissulega væri „haustbragur“ á ýmsu. KRingar voru mjög öflugir undir körfunum og gerðu heimastrákum lífið leitt með fjölda sóknarfrákasta.

Óli Gunnar var illviðráðanlegur sínum gömlu félögum, setti 37 stig og átti mörg glæsileg tilþrif. Vito skoraði 17, Ísar Freyr 14, þar af 2 „stórar“ þriggjastigakörfur þegar mest reið á undir lokin, Haukur Davíðsson skoraði 7 stig, Þorgrímur Starri 6 og varði nokkur skot, Arnar Dagur 4 stig, Gabríel og Sigurður Dagur 2. Daníel Sigmar og Styrmir Jónasar komu líka við sögu, þó þeir settu ekki stig, og stóðu sig vel.