FSU og ÍR mættust í Gjánni í gærkvöldi á Íslandsmóti drengjaflokks. Þetta varð skemmtilegur leikur, hraður og fjörugur og fór bæði drengilega og prúðmannlega fram, en heimamenn höfðu yfirhöndina og unnu örugglega, 101-79.

Það sem kætti ritara þessara lína mest voru þrælskemmtilegir kaflar hjá FSU liðinu með fallegum og fumlausum sóknarleik. Gott „flæði“ var á boltanum, liðið teygði á vörn ÍRinga og hraðar sendingar gáfu færi á gegnumbrotum. Þetta nýttu leikmenn sér óspart, og gaman var að sjá hve þeir voru í gegnumbrotunum fundvísir á félaga sína í opnum sniðskotum, stundum jafnvel óþarflega „óeigingjarnir“, sumir hverjir. Greinilegt er að yfirsýn og leikskilningur þroskast vel hjá þessum piltum og verður ekki leiðinlegt að fylgjast með þeim í framtíðinni. Þegar við bætist að allir leggja sig vel fram í vörninni má segja að betri skemmtun sé varla í boði en sitja á glerhörðum bekkjunum í stúkunni og njóta sýningarinnar.

ÍR liðið hefur líka á að skipa efnilegum strákum sem munu án efa halda merkinu á lofti í Breiðholtinu þegar fram líða stundir.

Fyrir FSU skoruðu þessir: Sigurður Hjaltason 31, Ísak Júlíus Perdue 20, Arnar Dagur Daðason 13, Eyþór Orri Árnason 13, Páll Magnús Unnsteinsson 10, Sæmundur Guðveigsson 10, Dagur Úlfarsson 2 og Sigmar Daníel Kristjánsson 2.

Fyrir ÍR: Hafliði Jökull Jóhannesson 27, Aron Orri Hilmarsson 21, Sebastian Guðmundsson 15, Nemanja Stankovic 13, og Brynjar Halldórsson 3.