Selfossliðið sigldi á sker á Akureyri í gærkvöldi og tapaði fyrir góðu liði Þórs með 34 stiga mun, 95-61. Eftir að hafa hangið í heimamönnum fram að hálfleik hrundi leikur liðsins, sem skoraði ekki stig síðustu rúmar 4 mínúturnar.

Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik, Þór alltaf með yfirhöndina en munurinn náði þó aldrei tíu stigum, þrátt fyrir afleitan leik Selfossliðsins, og því ljóst að með því að reima skóna og girða sig vel í leikhléi var „mikið rými til bætingar“ svo notað sé algengt en hörmulegt fjölmiðlamál. En þau tækifæri voru ekki nýtt, liðið náði engum takti og Þór nánast kláraði dæmið á fyrstu þremur mínútunum í seinni hálfleik, náði 17 stiga forystu sem Selfoss náði ekkert að naga niður. Ari Gylfason, besti leikmaður Selfyssinga í leiknum, minnkaði muninn í 16 stig með þriggja stiga körfu þegar rúmar 4 mínútur voru eftir, en það var svanasöngur Sunnanmanna í leiknum. Heimamenn bættu hins vegar við 18 stigum á „ruslmínútunum“ sem eftir voru.

Þó Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, hafi af sinni alkunnu kurteisi látið vinsamleg orð falla um andstæðinga sína eftir leik, var því miður engin innistæða fyrir þeim. Baráttan var til staðar hjá flestum leikmönnum og vilji til að gera betur, en því miður gekk ekkert upp, liðsheildin virkaði ekki, vörnin var slök og sóknin oft vandræðaleg. Það var eins og allt annað lið hefði stigið inn á völlinn en það sem lék ágætlega lengst af í fyrsta leik viku fyrr. Það gekk illa í þetta skiptið að klára færin inni í teig og fyrir vikið þurfti Þórsliðið ekkert að hafa áhyggjur af tvídekkun eða hjálparvörn og gat spilað þéttar úti á velli. Skotnýtingin segir sína sögu, 32% og aðeins 17% af þriggjastiga færi. Þór vann fráköstin 56-42 og stoðsendingar 23-12; framlagið 132-48.

Af Selfyssingum var það bara Ari sem segja má að hafi spilað vel. Hann leiddi sína hjörð í stigaskori (21), fráköstum (8) skotnýtingu (50%) framlagi (21) og ekki síst baráttuþreki. Aðrir lykilmenn voru nokkuð frá sínu besta, sumir óralangt. Maciek gerði þó vel í sóknarfráköstunum og Adam Smári sýndi þann karakter að honum væri ekki sama um gang mála. Fleiri reyndu sitt besta þó ekki hafi margt gengið upp. Áhyggjuefnið eftir þennan leik er fyrst og fremst liðsbragurinn. Það voru 5 einstaklingar inni á vellinum, uppfullir af því að gera sitt besta, en náðu ekki að stilla saman strengina. Auðvitað hefur það sín áhrif að fá með skömmum fyrirvara inn í liðið nýjan leikstjórnanda. Það er verkefni vikunnar framundan að aðlaga hlutverkaskipan fyrir næsta leik, sem er gegn Vestra, hér heima í Gjánni.

Hvað Þórsliðið varðar, þá lítur það mjög vel út. Vel skipulagt og þjálfað lið, eins og jafnan einkennir liðin hjá Lalla, þar sem hver leikmaður hefur sitt hlutverk á hreinu, gott jafnvægi með ógnun bæði fyrir utan og inni í teig, og að auki góða einstaklinga sem geta tekið af skarið ef á þarf að halda. Erlendu leikmennirnir falla mjög vel inn í liðið. Miljic með 29 stig og 12 fráköst og Larry Thomas 30 framlagspunkta þó hann sé ekkert að troða sér á framfæri. En 13 stig, 11 stoðsendingar og 8 fráköst eru gott dagsverk. Svo eru þarna flottir leikmenn eins og Ingvi Rafn, Pálmi Geir og Júlíus Orri, að ógleymdum Kristjáni Pétri og Bjarna Rúnari sem engu hafa gleymt þó þeir hafi stundum verið léttari á fæti.

Tölfræði leiksins má sjá hér.