Sameiginlega unglingaflokksliðið Selfoss/Hamar/Hrunamenn tapaði naumlega fyrir Breiðabliki á heimavelli sl. sunnudag, 79-86. Það var kæruleysi og allt of margir tapaðir boltar í þriðja og fram í fjórða fjórðung sem kostaði sigur í þessum leik, ásamt fjölda sniðskota sem fóru forgörðum.

Unglingaflokksliðið er skipað leikmönnum sem koma hver úr sinni áttinni og eru ekki vanir að spila saman en þeir geta sannarlega gert betur ef full einbeiting er til staðar, ekki síst í hröðum 3 á 1 og 4 á 2 sóknum sem þarf að ljúka með auðveldum körfum eftir góðar sendingar. Þar brást okkar liði bogalistin að þessu sinni en á ekki að vera mikið mál að kippa því í liðinn fyrir næsta leik.

Fyrir Selfoss/Hamar/Hrunamenn skoruðu Björn Ásgeir 22 stig, Orri Ellerts. 14, Elvar Ingi 9, Sigurjón Ívars. 8, Páll Ingason, sem spilaði sinn fyrsta leik eftir að hafa setið í meiðslum í allt haust, 7 stig, Arnór Bjarki 4, Arnar Dagur 2 og Hlynur Snær 2 stig.