Eftir langa mæðu er Íslandsmótið hafið á ný. Það lá fyrir Selfyssingum að aka til Ísafjarðar í fyrsta leik eftir bann og mæta Vestra. Ferðalagið gekk ljómandi vel en bílsetan fór heldur misjafnlega í menn og í stuttu máli virtist þumall á hverjum fingri í upphafi leiks og heimamenn náðu góðu forskoti sem dugði til sigurs, 82-75.

Vestri byrjaði með látum, þeir hittu nánast úr öllu á meðan hvorki gekk né rak hjá okkar mönnum og körfuhringurinn virtist gjörsamlega týndur, eða gleymst hefði að skrúfa hann á spjaldið. Jafnvel upplögð færi fóru forgörðum aftur og aftur. Heimaliðið náði fljótt miklu forskoti og þrátt fyrir að baráttuandann hafi ekki vantað í Selfossliðið og því hafi tekist að skapa tækifærin, þá tókst ekki  að ljúka oft og tíðum ágætum sóknum. Þetta skánaði þegar leið á leikinn og munurinn minnkaði niður í 7 stig þegar leik lauk, en það dugði skammt. Jafnt var á með liðunum í 2. leikhluta og Selfoss vann þann síðasta með 9 stigum, en sá fyrsti reyndist dýrkeyptur.

Fjórir menn héldu uppi merki Vestra í leiknum. Ken-Jah Bosley var stigahæstur með 31 stig og bætti við það 6 fráköstum og 5 stoðsendingum. Nemanja Knezevic var illviðráðanlegur að vanda með 21 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar, 35 framlagspunkta. Marko Dmitrovic setti 14 og Gabriel Aderstag 10.

Hjá Selfossliðinu fór Sveinn Búi fremstur í flokki með 16 stig og 8 fráköst, fína skotnýtingu. Gunnar Steinþórsson setti líka 16 stig, þar af 10/10 af vítalínunni, og átti góða spretti. Arnór Bjarki vaknaði til lífsins undir lokin og setti þrjá flotta þrista, endaði með 11 stig. Ari, sem fundið hafði gamla skó í geymslunni fyrir þremur vikum og reimað á sig, var sprækur og á eftir að reynast betri en enginn. Svavar Ingi stóð fyrir sínu og sömuleiðis Sigmar Jóhann sem spilar margar hæðir upp fyrir sig og lætur engan eiga neitt inni hjá sér.

Allir „stóru mennirnir“ í Selfossliðinu voru útilokaðir með a.m.k. 5 villur og sjá má ástæðuna á tölfræðiskýrslunni; Nemanja fiskaði hvorki meira né minna en 13 villur. Þetta, ásamt framlagi undir frostmarki hjá mikilvægum leikmönnum, varð okkur að falli í þetta skiptið. Slíkar tölur mega ekki sjást aftur.

Næsti leikur er heima í Gjánni nk. föstudag 22. janúar kl. 19:15