Kristijan Vladovic, leikstjórnandinn knái, hefur ákveðið að dvelja áfram á Selfossi út næsta keppnistímabil. Kristijan er tvítugur Króati sem hóf nám við körfuboltaakademíu Selfoss-Körfu við FSu sl. haust og hefur leikið lykilhlutverk með meistaraflokki og unglingaflokksliði félagsins það sem af er

keppnistímabilinu.

Kristijan er afar ánægður í herbúðum félagsins og sú ánægja er gagnkvæm. Hann er einstakur persónuleiki, tekur afar fagmannlega á öllum málum, æfir mikið og stendur sig með prýði sem yngriflokkaþjálfari. Hann uppfyllir vel þær kröfur sem félagið gerir til sinna ungu leikmanna með metnaði sínum og er því góð fyrirmynd.

Eftir 12 leiki í 1. deild er Kristijan með flotta tölfræðilínu: 15,3 stig, 4,3 fráköst, 5,1 stoðsendingu og 14,9 framlagspunkta að meðaltali í leik.

Selfoss-Karfa hlakkar til að vinna áfram með Kristijan Vladovic, fylgjast með stöðugum framförum hans sem körfuboltamanns og hjálpa honum eftir bestu getu til að ná háleitum markmiðum sínum.