A lið 9. flokks drengja gerði  góða og lærdómsríka ferð í Fjölnishöllina um síðustu helgi, þar sem fram fór fyrsta keppnishelgi Íslandsmóts A-riðils þennan veturinn. Þessi helgi fer í reynslubankann, þar sem þetta var í fyrsta skipti sem áhorfendur eru ekki leyfðir á leikjum, og strákarnir vanir því að hafa þéttan hóp stuðningsmanna á pöllunum.

Í fyrsta leik mættu drengirnir Haukum, sem reyndust engin fyrirstaða, og vannst leikurinn örugglega með 21 stigs mun, 69-48.

Næsti leikur var gegn Stjörnunni, sem var mun meira krefjandi verkefni. Selfoss leiddi þó mestan hluta leiksins en liðið tapaði einbeitingunni undir lokin – og leiknum með 1 stigi, 55-56.

Þá var komið að KR-ingum. Selfoss hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik en KR tók forystu fljótlega í þeim seinni, þó okkar menn væru aldrei langt undan, og eftir æsispennandi lokakafla hrósuðu KR-ingar sigri, 54-55.

Lokaleikur okkar liðs var gegn heimaliðinu, Fjölni, sem hafði unnið alla sína leiki fram að þessu. En nú var einbeiting Selfossliðsins í lagi allan tímann, það tók strax forystuna og lét hana ekki af hendi til loka leiks og sætur sigur í höfn, 63-56.

Selfoss vann því tvo leiki og tapaði tveimur með minnsta mun, báðum með aðeins einu stigi, og úrslitin hefðu hæglega getað orðið okkar liði í hag í báðum tilvikum.

Niðurstaðan varð 3ja sæti í A-riðli og geta drengirnir verið stoltir af frammistöðu sinni í upphafi keppnistímabils. Það er spennandi tímabil framundan og aldrei að vita hver lokaniðurstaðan verður í vor í þessum árgangi.

Ekki þarf að taka það fram að leikmenn Selfossliðsins voru sjálfum sér og félagi sínu til sóma innan vallar sem utan.