Selfoss/Hamar mætti b-liði Breiðabliks í 9. flokki drengja í dag á heimavelli sínum í Gjánni á Selfossi. Nokkur getumunur er á þessum liðum og strákarnir okkar unnu örugglega, 70-36.

Selfoss/Hamar tók strax völdin á vellinum og lék oft og tíðum skemmtilegan körfubolta, boltinn gekk vel milli manna og endaði í körfunni eftir fallegar fléttur og sniðskot. Þá var vörnin oftast góð og gaf þó nokkur auðveld stig eftir hraðaupphlaup.

Halldór Halldórsson og Fjölnir Morthens voru atkvæðamestir heimamanna í sókninni, áttu glimrandi leik og skoruðu báðir 20 stig. Sömuleiðis þeir Hafþór Elí sem setti 10 stig og Pétur Hartmann 8 eftir flott gegnumbrot, en allir strákarnir spiluðu sitt hlutverk vel og 8 af 9 settu stig á töfluna. Jón Árnason skoraði 5 í glæsilegum langskotum,  Óskar Ingi Eyþórsson 3 stig, og er að verða alveg magnaður varnarmaður, og þeir Jóhannes Haukur Kristjönuson og Egill Þór Friðriksson skorðuðu báðir 2 stig, en þeir tveir eru öflugustu leikmennirnir undir körfunum, gríðarsterkir báðir tveir. Nikulás Ágústsson lét einnig verulega til sín taka, þó hann setti ekki boltann í körfuna að þessu sinni, enda vita það allir að gera þarf fleira í árangursríku körfuboltaliði en að skora stig.

Blikastrákar áttu frekar undir högg að sækja en létu það ekki á sig fá og sýndu líka skemmtileg tilþrif á köflum, skoruðu fallegar körfur eftir gott samspil.

Liðið okkar er stórskemmtilegur hópur drengja sem  nær vel saman og gaman að horfa á körfuboltann sem boðið er upp á. Það hefur, þegar hér er komið sögu, unnið 10 leiki en aðeins tapað einum á Íslandsmótinu og stefnir hraðbyri á sigur í 2. deild og að leika í 1. deild á næsta ári, í 10. flokki. Þó er of snemmt að fagna, því 5 leikir eru eftir í deildarkeppninni og nauðsynlegt að halda báðum fótum á jörðinni, eða kannski frekar parketinu, æfa vel og gera sitt besta alla daga.

ÁFRAM SELFOSS!!!