Selfoss mætti Fjölni í 1. deild karla í gærkvöldi. Leikurinn fór fram á heimavelli Fjölnis í Dalhúsum og markaði upphafið að þriðju og síðustu umferð Íslandsmótsins. Selfossliðið átti ljómandi góða spretti í leiknum, raunar mjög góða, en því miður líka slakan kafla, sem vóg þyngra á metunum þegar upp var staðið, og því tapaðist leikurinn naumlega, 100-94.

Selfossliðið lék á als oddi í upphafi leiks og réð ferðinni. Það var einungis góð þriggja stiga hittni sem varð þess valdandi að heimaliðið kom í humátt á eftir, Fjölnir skoraði fyrstu 4 körfurnar af þriggjastigafæri en komst ekkert áleiðis nær körfunni. Selfoss leiddi með 14 stigum eftir fyrsta leikhlutann og skoraði mikið, 32 stig, gegn 18. Slæmi kaflinn kom svo í öðrum leikhluta en þá virtist liðið hafa gleymt hausnum við varamannabekkinn, hinn hraði og glimrandi skemmtilegi sóknarleikur var á bak og burt og varnarleikurinn týndur og tröllum gefinn. Fjölnir vann þennan leikhluta 31-11 og fór með 6 stiga forskot inn í hálfleik, 49-43.

Ekki leit heldur gæfulega út fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik, þegar Fjölnir skoraði fyrstu fjórar körfurnar úr auðveldum hraðaupphlaupum og virtist hreinlega ætla að stinga af. En „þá var eins og blessuð skepnan skildi“ og allt snerist til betri vegar, þannig að þriðji leikhluti tapaðist bara með 2 stigum, 21-19. En þó Selfoss léki vel á sóknarvelli í síðasta fjórðungi, og skoraði aftur 32 stig eins og í fyrsta leikhluta, þá hélt vörnin ekki nógu vel og heimaliðið svaraði nánast öllum sóknarfléttum gestanna með körfum hinum megin. Þar réðu úrslitum þrír erlendir atvinnumenn Fjölnis sem skoruðu nánast öll stig liðsins í einni hálfleik. Simon Fransis, sem er hávaxinn bakvörður/framherji, var erfiður ljár í þúfu, hitti mjög vel fyrir utan og Fjölnisliðið gat skapað ójafnvægi honum í hag með boltahindrun frá miðherjanum Lewis Diankulu, sem fór líka loksins að hitta úr sínum sniðskotum. Selfossliðið hafði hvorki ráð uppi í erminni né líkamlegan styrk til að stöðva þetta, og því fór sem fór.

Fransis skoraði 30 stig og tók 11 fráköst, Diankulu setti 18 stig og tók 13 fráköst og leikstjórnandinn Petar Peric skoraði 14 stig og gaf 6 stoðsendingar. Þrír ungir Fjölnisstrákar létu að sér kveða af þriggjastigafæri, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hilmir Arnarson (15 stig) skaut 4/4, Brynjar Kári (6 stig) 2/2 og Ísak Örn (11 stig) 3/4. Sem er með ólíkindum, 9/11 eða 82% reiknuð þriggjastiganýting hjá þremur leikmönnum!! Rafn Kristján bætti við þeim 6 stigum sem upp á vanta, öll af vítalínunni (6/6).

Fimm leikmenn Selfoss skoruðu 15 stig eða meira, sem er afar jákvætt. Bæði Ísar Freyr (16 stig, 5 frk.) og Ísak (18 stig, 7 sts.) voru góðir í leikstjórnandastöðunni og skoruðu nánast öll sín stig með kraftmiklum gegnumbrotum. Gerald var framlagshæstur (22 stig, 9 frk.) og hélt þriggjastiganýtingu liðsins í 38% með því að setja niður öll 5 skotin sín. Aðrir voru undir meðaltali af þriggjastigafæri og munaði um það. Arnaldur skoraði 16 stig og tók 8 fráköst, Kennedy 15 stig og 4 fráköst, Brikir Hrafn 6 stig og 6 fráköst og Styrmir skoraði 1 stig.

Það var ánægjulegt að sjá Fróða Larsen og Ara Hrannar koma inn á í stutta stund og standa fyrir sínu, Fróði nældi t.d. í sóknarfrákast og varði eitt skot. Þannig að smám saman eru fleiri úr 2006 árganginum komnir á blað í meistaraflokki og fá tækifæri til að undirbúa sig fyrir stærra hlutverk á næsta og næstu árum og að taka smám saman við keflinu, sem er einmitt meginmarkmið félagsins hvað karlaliðið varðar. Úrslit í einstökum leikjum eru því í sjálfu sér ekki aðalatriði á þessu stigi málsins, þó auðvitað sé alltaf markmiðið fyrir hvern leik að vinna hann. Og það er tvímælalaust jákvætt, og gleðiefni, að liðið okkar standi nokkurnveginn jafnfætis flestum hinna liðanna, sem tefla fram a.m.k. þremur erlendum atvinnumönnum, með jákvæðum undantekningum þó.

Ef tölfræðiskjalið er skoðað kemur í ljós að víða var jafnræði með liðunum. Skotnýting Selfoss utan af velli var ívið betri, en auðvitað vegur þriggjastiganýtingin töluvert meira en tveggjastigahittnin. Fjölnir hitti úr 14 þristum (40% nýting) en Selfoss úr 9 (38% nýting), og græddi á því heil 15 stig. Það munar um minna. Ekki munaði miklu á fráköstunum en Selfoss varð verulega undir í gefnum stoðsendingum (21/13).

Tölfræðin

Staðan í deildinni

Næsti leikur Selfoss er heimaleikur í Gjánni gegn Hrunamönnum nk. föstudag kl. 19:15. Gaman væri að sjá fólk í stúkunni, því leikir þessara liða eru jafnan hin besta skemmtun.

ÁFRAM SELFOSS!!!