Löngu og ströngu keppnistímabili er nú lokið á Selfossi. Liðið tapaði á heimavelli fyrir Hamri í 4. leik undanúrslita 1. deildar karla og þar með viðureigninni 1-3. Hamar heldur áfram og fæst næst við Vestra í 5 leikja seríu um að fylgja Breiðabliki upp í úrvalsdeild, Dominos deildina.

Leikurinn í gær var jafn í fyrsta hluta, Hamar skrefinu á undan og leiddi 21-23 að honum loknum. Gestirnir tóku svo öll völd í 2. leikhluta og leiddu með 15 stigum eða meira langt fram í þriðja leikhluta, þegar Selfoss beit frá sér og minnkaði muninn jafnt og þétt þannig að þegar aðeins síðasti leikhlutinn var eftir munaði 4 stigum, 65-69, og allt opið. Selfoss jafnaði svo 74-74 snemma í 4. hluta en lengra komust strákarnir ekki. Þegar lítið var eftir munaði 6 stigum, 88-94, en lokatilraunir Selfoss misfórust og Hamar lauk leiknum með því að setja niður tvö vítaskot og sigra 88-96.

Eins og fyrr var það Jose Medina sem gerði gæfumuninn fyrir Hamar. Hann lék mest, allar 40 mínúturnar, skoraði mest, 22 stig, gaf flestar stoðsendingar, hvorki meira né minna en 18, var framlagshæstur, 25 punkta og fiskaði flestar villur, 9 stykki. Með honum í framvarðarsveit eru Ragnar Jósef (20 stig/20 frl.), Lutterman (20 stig/23 frl.) og Pálmi Geir (15 stig/9 frk./23 frl.). Þetta eru allt sjóaðir og góðir leikmenn sem njóta þess að spila með afbragðsgóðum leikstjórnanda.

Terrance Motley dró Selfossvagninn að þessu sinni á nánast öllum sviðum, enda eini atvinnumaður liðsins, með 34 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar, 9 fiskaðar villur og úrvals skotnýtingu, 39 framlagspunkta. Þarna þekkir maður „gamla Terrance“ sem skartaði sambærilegum tölum með Selfossliðinu tímabilið 2016-17. Kennedy skilaði góðu dagsverki með 19 stig, 12 fráköst og fíona skotnýtingu, 27 framlagspunkta. Arnór Bjarki skilaði sínu vel og rúmlega það með 15 stig og 13 frlpunkta en aðrir voru nokkuð undir meðaltölum sínum. Kristijan  skoraði 9 stig og gaf 8 stoðsendingar, sem margir væru stoltir af, þó það virðist lítið í samanburði við leikstjórnanda Hamars. Sveinn Búi skoraði 6 stig og gaf 5 stoðsendingar og Gunnar Steinþórsson 3 stig.

Eftir sveiflukennda frammistöðu hjá þessu unga liði í vetur var það kærkomið að fá sigra og góða leiki í lokin, slá Sindra, liðið í 3. sæti deildarkeppninnar, út í 8 liða úrslitum og stríða Hamri, liðinu í 2. sæti, verulega í undanúrslitum. Selfoss var hársbreidd frá því að vinna fyrsta leik liðanna í Hveragerði, missti þann leik raunar í framlengingu eftir að hafa verið með pálmann í höndunum. Síðan kom stórsigur á heimavelli og að lokum ágætt áhlaup í 4. og síðasta leik. Það má segja strákunum til hróss að þeir lögðu sig alla fram í vetur, æfðu vel og tóku margir miklum framförum. Lokakaflinn gefur þeim tilefni til að efla trú og sjálfstraust fyrir næsta kafla á ferlinum.

Það var heiður að fá tækifæri til að vinna með þessum drengjum í vetur, þetta eru sannir heiðursmenn sem eiga framtíðina fyrir sér. Takk fyrir samveruna, drengir!!!

Tölfræðiskýrslan

Myndasafn úr leiknum

Að lokum er vert að þakka Sindra og Hamri fyrir skemmtilegar og drengilegar viðureignir og Hamarsliðinu velgengni í úrslitarimmunni.

ÁFRAM SELFOSS!!!