Markmið Selfossliðsins, að komast í úrslitakeppnina, fór í súginn með þremur tapleikjum í röð. Tveir þessara leikja voru jafnir og vantaði aðeins herslumun að klára dæmið, fyrst heima gegn Hamri, eins og fjallað hefur verið um hér á síðunni, og nú síðast heima gegn Vestra, en þetta voru liðin sem við vorum helst í baráttu við um sætið. Milli þessara leikja var útileikur gegn Þór norður á Akureyri en þar vantaði meira upp á að sigur næðist, enda Þór með heilsteyptasta og besta liðið í deildinni.

Leikurinn á Akureyri var mjög sveiflukenndur. Okkar menn mættu ekki með rétt hugarfar til leiks og áður en við varð litið var staðan orðin 16-2. Þá kviknaði á perum og Selfoss minnkaði muninn í 26-17 fyrir lok fyrsta fjórðungs. Áfram hélt Selfoss að saxa á muninn, sem fór niður í 36-32 um miðjan annan hluta. Ekki komumst við nær, einbeitingin minnkaði, menn fóru út úr leikskipulagi og Þór refsaði með heilmiklu skriði. Í upphafi þriðja leikhluta var munurinn kominn að 20 stigum, 61-42 og útlitið ekki gott. En þá girtu strákarnir sig aftur í brók og sýndu hvað þeir geta, munurinn fyrir síðasta leikhlutann var aðeins 4 stig, 75-71. Vonir um kærkominn sigur fjöruðu þó út fljótlega í 4. hluta, Þór náði muninum upp fyrir 10 stig og hélt því forskoti út leikinn, lokatölur 92-78.

Larry Thomas var bestur norðanmanna með 24 stig, 9 frk. og 7 sts. og Damir Mijic kom honum fast á hæla með 22 stig (og óþarflega góða skotnýtingu) á aðeins 20 mínútum, en hann meiddist og þurfti frá að hverfa. Pálmi Geir, Júlíus Orri, Kristján Pétur, Igvi Rafn og Bjarni Rúnar voru allir góðir og skiluðu fínum framlagstölum.

Hjá Selfossliðinu voru Marvin Smith Jr. og Chaed Wellian fremstir í tölfræðiþáttum, Chaed með 19 stig og 6 fráköst en ekki góða nýtingu og of mikið af slæmum skotum. Marvin skoraði 16 og tók 9 fráköst en lítið fékk hann, og fleiri leikmenn Selfossliðsins, fyrir sinn snúð við körfuhringinn, þannig að skotnýtingin á tölfræðiskýrslunni gefur kolranga mynd af frammistöðu leikmanna. Snjólfur, Ari, Björn Ásgeir og Svavar Ingi áttu allir ágætan leik, en það sem skorti til að eiga raunverulega möguleika á að vinna Þórsara var betri liðsbragur; að halda sig við leikskipulagið bæði sóknar og varnarlega, því þegar það  var gert var segin saga að við jöfnuðum leikinn.

Leikurinn gegn Vestra var mun betri af okkar hálfu, og sennilega að mörgu leyti besti leikurinn í vetur, þrátt fyrir klaufalegt og grátlegt tap. Vestri byrjaði aðeins betur en eftir 6 mín. komst Selfoss yfir 15-14 og hélt forystunni, 6-12 stigum, alveg þar til 4 mín. voru eftir, þegar Vestri jafnaði 87-87. Selfoss var á undan að skora í framhaldinu og leiddi 95-93 þegar mínúta var eftir. Vestri jafnaði en í næstu sókn, þegar leikmaður Selfoss var að fara framhjá varnarmanni með auða braut að körfunni, steig hann út af vellinum og Ísfirðingar fengu ókeypis tækifæri til að taka forystuna. Sem þeir nýttu fullkomlega og lokatilraunir heimamanna til að jafna eða vinna runnu út í sandinn, reyndar í stækum villufnyk sem lagði um allt hús og næsta nágrenni.

Þessi leikur var lengst af einna heilsteyptastur hjá liðinu í allan vetur, fullt af stoðsendingum, aukasendingum á opnari mann (sem hafa verið of sjaldséðar) og fyrir vikið betri liðsbolti og skemmtilegri körfubolti. Þá var heldur ekki að sökum að spyrja; liðið hélt ágætri forystu. Það var ekki fyrr en í lokin sem fór að kvarnast upp úr þessari heildarmynd – og fyrir vikið tapaðist leikurinn. En sem sagt, þegar liðið sýnir þessa takta þá er það jafngott og öll hin liðin í efri hlutanum, eða betra.

Erlendu leikmennirnir þrír héldu Vestraliðinu á floti, Nebojsa auðvitað magnaður eins og vanalega með 23 stig, 6 frk. og 5 sts. og Jure Gunjina sömuleiðis með 26 stig og 5 frk. Nemanja setti 14 stig og tók 7 fráköst og nýtti 70% skotanna. Hugi Hallgrímsson átti góðan dag og Adam Smári, Magnús Breki og Ingimar Aron skiluðu mikilvægu framlagi, Magnús og Ingimar skoruðu mikilvægar þriggjastigakörfur þegar síst skyldi.

Marvin Smith Jr. var öflugur með 23 stig og 15 fráköst, 35 framlagspunkta, og Chaed átti sinn besta leik, 24 stig, 8 fráköst og fína nýtingu, og spilaði ágæta vörn, gerði Nemanja erfitt fyrir á köflum. Ari var góður, 18 stig og 3 fráköst, og +/- talan segir til um mikilvægi hans í leiknum. Hlynur Hreinsson spilaði sinn besta leik hingað til, skoraði 15 stig og gaf 12 stoðsendingar, margar hreinustu gull. Snjólfur lék líka vel, þó hann hafi oft skorað meira þá hélt hann sig innan skipulags og þétti liðsheildina, auk þess að spila fína vörn og taka 9 fráköst. Þessir leikmenn, byrjunarliðið, spilaði lungann úr leiknum, allir meira en 33 mínútur, Marvin þar af minnst vegna meintra villna.

Þetta tap gerði út um úrslitasætismöguleika. Tölfræðilegur möguleiki er enn á að ná Vestra að stigum, en Ísfirðingar standa betur að vígi með 2-1 í innbyrðis viðureignum liðanna.

Nú getur félagið því hafið undirbúning fyrir næsta – og næstu – tímabil. Þetta sem er að klárast hefur verið lærdómsríkt í meira lagi og verður að treysta því að önnur eins áföll dynji ekki yfir í bráð.