Selfoss/Hamar mætti Stjörnunni í VÍS bikarkeppni 9. flokks drengja í gærkvöldi. Leikið var á heimavelli okkar í Gjánni en það hjálpaði okkar mönnum lítið að þessu sinni, Stjarnan var mun sterkari og vann stóran sigur, 53-94.

Í þessum leik kom vel í ljós munurinn á milli deilda. Stjarnan er efst í 1. deild, taplaus eftir 5 leiki og Selfoss/Hamar trónir á toppi 2. deildar með 6 sigra en hefur sömuleiðis ekki enn tapað leik á Íslandsmótinu. Ef strákarnir halda sama dampi munu þeir færast upp í 1. deild á næsta tímabili og verður gaman að sjá hvort þeir eiga ekki alveg erindi í liðin í efstu deild, þó besta liðið þar sé vissulega óárennilegt.

Á morgun föstudag er meiri bikarkeppni en þá spila bæði liðin okkar í 10. flokki drengja, bæði á útivelli og merkilegt nokk, bæði gegn Stjörnunni:

Stjarnan c – Selfoss a, Ásgarður kl. 18:30

Stjarnan – Selfoss b, Ásgarður kl.  20:15