Stelpurnar í minnibolta eru búnar að vera á fullu síðust tvær helgar. Fyrri helgina voru stelpurnar að keppa í Grindavík í 2.umferð Íslandsmóts minnibolta 11 ára og nýliðna helgi var komið að minnibolta 10 ára að keppa í Kópavogi.

Veðrið setti strik í reikninginn hjá 11 ára liðinu. Á laugardeginum voru allar leiðir frá Selfossi til Grindavíkur lokaðar þangað til að Þrengslin opnuðu kl 13:00 en fyrsti leikur átti að hefjast kl 14:00. Stelpurnar og foreldrahópurinn náðu þó að mæta á endanum, en aðeins of seint og mættu beint í leik gegn heimastúlkum í Grindavík. Þar var um hörkuleik að ræða en Grindvíkingar alltaf skrefninu á undan og okkar stúlkur hálf kaldar og stífar eftir hrakningarnar í umferðinni. Tap varð niðurstaðan og margt sem mátti bæta. Næsti leikur var gegn Stjörnunni og mættum við þar hörkuliði eins og búast mátti við. Stjörnustelpur sundurspiluðu okkar stelpur í fyrri hálfleik og munurinn orðinn mikill þegar flautan gall eftir 10 mínútur. Ákveðið var að leggja allt kapp í að bæta varnarleikinn í seinni hálfleik og gekk það afar vel og náðu stelpurnar að halda andstæðingnum í aðeins tveimur körfum í seinni hálfleik. En það dugði ekki til í þetta skiptið. Tvö töp eftir fyrri keppnisdag.

Seinni daginn mættu okkar konur Haukum úr Hafnarfirði og var mikil barátta framan af. Jafnt var með á liðum í hálfleik og varnarleikurinn góður. Í seinni hálfleik náðum Selfossstelpur að stinga af og unnu sannfærandi. Seinni leikur dagsins var á móti grönnum okkar úr Þór Þorlákshöfn. Sá leikur var mikil barátta en Selfossstelpurnar alltaf aðeins á undan. Eftir baráttuleik náðu okkar stúlkur að landa sigri og því sigur í báðum leikjum sunnudagsins.

Miklar framfarir sáust síðan á síðasta móti sem var í haust í Keflavík. Keppt var í C1 riðli en liðið keppti síðast í D1 riðli.

Liðið var skipað þeim Karólínu og Sigríði Svanhvíti úr 6.bekk, Sigurdísi og Telmu Karen úr 5.bekk og þeim Heklu, Hrafnhildi og Sigríði Elvu úr 4.bekk.

-Trausti Jóhannsson, þjálfari mb. stúlkna.

Myndir: Jón Sveinberg Birgisson, Kristín Birna Bragadóttir, Ólafur Valdín Halldórsson og Veiga Dögg Magnúsdóttir.

 

ÁFRAM SELFOSS!!!