Þór frá Akureyri fór illa með Selfossliðið á heimavelli þess í Gjánni í kvöld. Þó lokatölur hafi sýnt „aðeins“ 20 stiga tap, 93:113, var munurinn á liðunum kominn í 30 stig og hefði vel getað verið mun meiri.
Þórsarar léku sér að heimamönnum eins og á léttri grínæfingu, skoruðu ýmist úr auðveldum sniðskotum eða dauðafríum þriggjastigaskotum og það var alveg sama hver norðanmanna henti boltanum frá sér, allt söng í netinu.
Heimamenn gátu hins vegar margir hverjir ekki keypt körfu, jafnvel þó dauðafæri væru í boði, og varnarleikurinn var vægast sagt slakur.
Af einhverjum ástæðum er tölfræðin úr leiknum ekki komin á Netið, en það er sennilega sumum huggun harmi gegn að hún sé ekki gerð opinber.
Lýst er eftir karakter Selfossliðsins. Hann sást síðast austur á Egilsstöðum, í búningi félagsins.
Þeir sem hafa orðið hans varir eru beðnir að láta stjórn og þjálfara liðsins vita.