Vegna Covid19 faraldursins hefur orðið að ráði að fresta körfuboltabúðunum okkar, sem halda átti 6.-9. júní og búið var að leggja gríðarlega vinnu í að undirbúa, með þátttöku NBA þjálfara, NCAA þjálfara og stórskotaliðs íslenskra þjálfara og leikmanna.

Þrátt fyrir að mögulega verði ferða- og samkomubanni aflétt í byrjun júní hér á landi er mikil óvissa víða erlendis, ekki síst í Bandaríkjunum þaðan sem stór hluti þjálfaranna kemur. Einnig er alger óvissa hjá nokkrum hópum ungmenna frá Evrópulöndum sem búnir voru að boða þátttöku í búðunum.

Stefnt er að því fullum fetum að halda búðirnar síðsumars, ef mögulegt verður, og munum við upplýsa um framvindu mála og nýjar dagsetningar þegar tímabært er.

Það er von okkar að allir séu við góða heilsu og fylgi fyrirmælum sóttvarnayfirvalda til hins ítrasta. Það var sárt að taka þessa ákvörðun, en óhjákvæmilegt. Heilsan gengur fyrir öllu.

Skráning í búðirnar er áfram opin, og nýir skráningar- og greiðslufrestir verða tilkynntir þegar ný dagsetning liggur fyrir.

Þeir sem þegar hafa skráð sig og greitt staðfestingargjald eru vinsamlegast beðnir að hafa samband til að fá endurgreitt ef þeir geta ekki sótt búðirnar síðsumars.