Á sunnudagskvöldið síðasta spilaði stúlknaflokkur á móti Fjölni/ÍR í Breiðholtinu. Leikurinn byrjaði mjög vel fyrir okkar stelpur og eftir þriggja mínútna leik var staðan orðin 10-0. Hélst sá munur að mestu til loka fyrsta leikhluta þar sem staðan var 20-12. Eitthvert kæruleysi færðist þá yfir leik liðsins og gengu heimastúlkur á lagið og náðu að minnka muninn niður í tvö stig fyrir hálfleik, 31-29 fyrir FSu. Eftir gott spjall í hálfleik náði FSu að rífa sig þægilega frá Fjölni/ÍR í þriðja leikhluta og unnu þann leikhluta 23-8 og staðan orðin nokkuð þægileg fyrir fjórða leikhluta, 54-37. Í fjórða leikhluta gerðu okkar stelpur það sem til þurfti og unnu að lokum þægilegan sigur, 65-53.

Stigaskor FSu: Perla 14 stig, Helga 14 stig, Dagrún 11 stig, Gígja 10 stig, Margrét 6 stig, Una 4 stig, Milena 4 stig og Hrafnhildur 2 stig.

 

A-lið drengjaflokks tók í gærkvöldi, 6. Nóvember, á móti liði Keflavíkur í Vallaskóla. Mikil barátta var í leiknum og voru okkar strákar oft að láta hlutina fara óþarflega mikið í taugarnar á sér. Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en þó náðu okkar strákar að slíta sig aðeins frá Keflavík um miðbik annars leikhluta og náðu þá 13 stiga forskoti en með miklu kæruleysi  og klaufalegum mistökum í lok leikhlutans hleyptu þeir Keflavík aftur inn í leikinn og leiddu gestirnir með einu stigi í hálfleik, 41-42. Áfram héldu okkar strákar í FSu að gera hlutina erfiða fyrir sjálfa sig í þriðja leikhluta og varð munurinn mestur 11 stig, 66-55 Keflavík í vil, en með góðum lokaspretti tókst að minnka muninn niður í 5 stig fyrir lokaleikhlutann. Í fjórða leikhluta tókst loks að leysa svæðisvörn gestanna þar sem boltinn fór að ganga betur á milli manna. Að lokum hafðist sigur 88-84 í hörkuleik.

Stigaskor FSu: Styrmir 36 stig, Arnór 13 stig, Sæmundur 11 stig, Sævar 11 stig, Tristan 9 stig, Viktor 4 stig, Þröstur 3 stig og Arnar Dagur 1 stig.