FSU gerði góða ferð á Sauðárkrók í gær og vann Tindastól í sveiflukenndum leik í drengjaflokki, 70-80. FSU-liðið var nokkuð laskað, Eyþór Orri og Aron Ernir báðir frá vegna meiðsla og Sæmundur ekki með heldur. En það eru þeir sem spila sem telja og eftir risjótta kafla unnu piltarnir öruggan sigur.

FSU byrjaði af krafti og leiddi 13-23 eftir fyrsta hluta og náði mest 18 stiga forystu í fyrri hálfleik. En einbeitingin fjaraði aðeins út og Tindastóll tók við sér, minnkaði muninn í 5 stig fyrir hlé, 35-40. Á þessum kafla virtist vera lok á körfuhringnum, fjölmörg sniðskot, hvort sem voru galopin eður ei, fóru forgörðum hjá okkar mönnum; reyndar var það svolítið viðkvæðið allan leikinn. Liðið spilaði vel á köflum, skapaði sér færin en kláraði þau ekki.

FSU hélt forystunni allan tímann, 44-57 eftir þrjá hluta, og þó Tindastóll sækti töluvert á á köflum og minnkaði muninn óþægilega mikið, héldu strákarnir bæði haus og forystunni og lönduðu góðum 10 stiga sigri.

Vel gert strákar!!