Selfoss Karfa hefur ráðið Frédéric Thuriés í starf aðstoðarþjálfara körfuboltaakademíu félagsins við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Jafnframt mun Fred aðstoða Chris Caird með m.fl. karla, taka að sér hlutverk yfirþjálfara yngri flokka og stýra liði 10. flokks kvenna, sem rekið er í samstarfi Selfoss, Hrunamanna og Hamars.

Fred er fæddur í Frakkalndi og hefur áður verið hér á landi, meira að segja á Selfossi, því hann kom haustið 2008 til að starfa við akademíuna. Vegna efnahagshrunsins varð dvöl hans þó stutt í það skiptið.

Hann nam í Frakklandi og einnig Bandaríkjunum, þar sem hann var skiptinemi við Arvada High-School í Colorado. Eftir tvö ár í BNA fór hann aftur heim til Frakklands til að stunda körfuboltaþjálfaranám og ljúka þjálfaragráðum hjá franska sambandinu.

Fred þjálfaði á öllum yngri stigum í Frakklandi, m.a. yngri landslið. Hann var fljótt farinn að þjálfa atvinnumenn og var aðstoðarþjálfari 2008 og 2009 hjá Boulazac og Quimper, sem bæði leika í „ProB deildinni“ í Frakklandi. Starf hans og árangur með yngri aldurshópa og í atvinnumennsku opnaði tækifæri í alþjóðaboltanum og var hann ráðinn aðstoðarþjálfari hjá karlalandsliði Fílabeinsstrandarinnar árið 2009.

Frá 2009-2013 náði Fílabeinsströndin í silfurverðlaun á „AfroBasket“ í Líbíu, komst á HM í Tryklandi og spilaði þar gegn Rússlandi, Tyrklandi, Grikklandi, Kína og Puerto Rico og komst svo tvisvar til viðbótar í undanúrslit á AfroBasket.

Fred hefur mikla reynslu sem aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari á öllum getustigum. Hann hefur einnig unnið fyrir franska körfuboltasambandið í mörg ár, stjórnað verkefninu „Basket in School“ fyrir krakka, haldið námskeið fyrir þjálfara til að undirbúa þá fyrir atvinnuþjálfarapróf, þjálfað og undirbúið efnilegustu leikmenn Frakka fyrir svæðiskeppnir og fyrir þáttöku í verkefnum yngri landsliða Frakklands.

Fred og Katia kona hans eiga þrjú börn, Johan, Elisu og Mayu.

Fred kemur á Selfoss um næstu mánaðamót, en ráðningu hans bar brátt að af ófyrirsjáanlegum ástæðum. Við erum afar ánægð með nýja starfsmanninn og bjóðum hann hjartanlega velkominn til félagsins.