Á óvissutímum er mikilvægt að setja sér markmið, mælanleg markmið og skipulagða dagskrá. Þegar íþróttahúsið er lokað og skólinn á hálfum hraða þarf að gera æfingar og stunda námið heima samkvæmt eigin, fyrirfram ákveðinni stundaskrá, alveg eins og á hefðbundnum skóladegi og á æfingum; íslenska kl. 9-10, körfubolti kl. 11-12, stærðfræði kl. 13-14, körfubolti kl. 16-17 o.s.frv.

Þannig er hægt að viðhalda færni og efla sjálfstraustið, þrátt fyrir að kerfin sem vanalega halda utan um lífið og tilveruna séu að hluta til óvirk.

Oft er sagt að í íþróttum skipti „litlu hlutirnir“ sköpum: ein slök sending, eitt slæmt skot, augnabliks einbeitingarleysi réð úrslitum í leiknum! Það er ekki bara mögnuð flautukarfa sem ræður úrslitum, oftar eru það „litlu hlutirnir“.  Þetta á líka við í lífinu sjálfu. Þar kemur fleira að gagni en að vinna í happdrættinu: Dagleg driplæfing í 10 mínútur heima, 3 reiknuð dæmi og einn lesinn kafli í bók, að búa um rúmið og taka til, fara út með ruslið. Allt þetta skiptir miklu máli. Kíkið á „Driplið“ á kki.is. Þar eru flottar æfingar.

 

Eftirfarandi er fengið að láni úr skilaboð frá Þorgrími Þráinssyni til sinna félagsmanna í Val. Þau eiga erindi við alla. Með því að skipta Hlíðarenda út fyrir Gjána og Val fyrir Selfoss-Körfu í textanum, þá erum við komin á heimavöll!!!

 

„NÝTUM TÍMANN VEL

Heimsmetið í armbeygjum er 10.507. Án þess að stoppa. Japaninn Minoru Yoshida setti metið 1980. Heimsmetið með hvíld annað slagið er 46.001 armbeygja. Bandaríkjamaðurinn Charles Servizio setti metið 1993 á 21 klukkutíma og 21 mínútu. Ég rétti slefa í 50 þegar ég er í stuði!

Við lifum á tímum óvissu. Engar æfingar að Hlíðarenda þar til í næstu viku en það er ekki þar með sagt að við þurfum að liggja í leti og láta óttann stjórna okkur. Vissulega eigum við að fara varlega og fylgja ráðleggingum sérfræðinga og foreldrum okkar en það er mikilvægt að gera eitthvað geggjað á hverjum einasta degi, setja sér markmið og merkja við það sem við höfum lokið við. Við getum öll bætt okkur dag frá degi með litlu hlutunum. Ef ég væri krakki í Val og engar æfingar væru í gangi og takmarkað skólastarf — myndi ég skipuleggja tíma minn vel.

  1. Ég myndi lesa góða bók í að minnsta kosti 30 mínútur á dag og skrifa þau orð niður á blað sem ég skil ekki og fletta þeim upp. Þannig myndi ég læra 10 ný orð á dag. Það eflir sjálfstraustið og námsárangurinn. Sjálfstraustið stjórnar för okkar í lífinu. […]
  2. Ég myndi drippla körfubolta á allan mögulegan hátt, stundum með lokuð augun, vinstri og hægri og æfa skotstílinn á leikvelli með körfu, stökkskot og úr kyrrstöðu, á margvíslegan hátt.
  3. Ég myndi nota tækifærið og skoða hvernig ég nýti tímann á hverjum einasta degi og gera betur. Búa um rúmið, borða hollari mat, minnka skjátíma (sími, sjónvarp, tölva), hafa herbergið hreint, vaska upp, út með ruslið, bæta mig í stærðfræði með því að reikna sömu dæmin aftur og aftur. Passa upp á svefninn og auðvitað æfa vel.
  4. Ég myndi reyna að bæta mig andlega og líkamlega, gera armbeygjur, hnébeygjur, kviðæfingar, öndunaræfingar, hugleiða og sjá fyrir mér árangurinn, innan vallar sem utan.

Áður en langt um líður verður aftur opið að Hlíðarenda, líklega með örlítið breyttu sniði til að byrja með en starfsmenn, þjálfarar og stjórnir eru fyrst og fremst að hugsa um hvað okkur öllum er fyrir bestu, samkvæmt ráðleggingum almannavarna. Fyrr en síðar verður vor í lofti og vindur hlýr og við reynslunni ríkari og lífið mun hafa sinn vanagang. Við höfum öll gott af því að standa frammi fyrir erfiðum áskorunum annað slagið því þá gefst okkur tími til að rýna í hegðun okkar, hvort við erum virkilega að leggja okkur fram dagsdaglega eða þykjast. Sjálfsgagnrýnin ætti að þroska okkur. Tíminn er dýrmætur og við eigum að nota hann vel.“

 

Farnist ykkur öllum vel í verkefnum næstu daga og vikna. ÁFRAM SELFOSS!!!