Í kvöld fór fram fyrsti heimaleikur meistarflokks Selfoss á þessu tímabili og voru andstæðingarnir Skallagrímur frá Borgarnesi. Leikurinn átti að byrja kl. 19:15 en vegna lokana í Hvalfjarðargöngunum byrjaði leikurinn ekki fyrr en kl. 20. Það kom ekki á sök, mætingin á leikinn var frábær. Grillaðir voru hamborgarar fyrir leikinn sem og mikil stemning myndaðist á pöllunum. Yngstu iðkendurnir okkar fengu að leiða leikmennina inn á völlinn þegar liðin voru kynnt til leiks og leyndi ánægjan sér ekki hjá þeim við að vera í návist hetjanna þeirra.

En þrátt fyrir góða umgjörð og frábæra stemningu á pöllunum fór leikurinn ekki eins og við höfðum óskað eftir, Skallagrímur vann leikinn 94-103. Leikurinn var mjög jafn og mikið skorað í fyrstu tveimur leikhlutunum. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum voru Selfyssingar yfir með einu stigi en þá kom sterkt áhlaup Borgnesinga sem lagði grunninn að sigri þeirra. Selfoss missti lykilleikmenn út af með fimm villur og reyndist róðurinn of þungur eftir þar. Munurinn var orðinn 10 stig þegar mínúta var eftir af leiknum og héldu gestirnir þeim mun til leiksloka.

Michael Asante átti stórleik fyrir Selfyssinga með 36 stig og 18 fráköst. Birkir Hrafn Eyþórsson var með 16 stig, Arnór Eyþórsson 14 stig, Vojtch Novák 13 stig og 11 fráköst, Ísar Jónasson og Ísak Perdue voru báðir með 6 stig og Geir Helgason með 3 stig.

Næsti leikur Selfyssinga er gegn nýliðum 1. deildarinnar, KR, á Meistaravöllum föstudaginn 20. okt. kl. 19:15.

Áfram Selfoss!