Töluverðar hræringar hafa verið í leikmannahópi Selfoss undanfarið og hefur það vitaskuld haft áhrif á undirbúning liðsins og fyrstu skrefin á Íslandsmótinu. Fyrst er til að taka að leikstjórnandi sem fenginn var frá Englandi stóð ekki undir væntingum og varð að samkomulagi um miðjan september að hann sneri til síns heima.

Eftir nokkra æfingaleiki gegn úrvalsdeildarliðum kom svo í ljós að bandaríski leikmaðurinn sem ráðinn hafði verið til að verja körfuna, taka fráköst og draga að sér mannskap í teignum reyndist ekki sá ógnvaldur sem til stóð að yrði. Samningi við hann var því slitið í síðustu viku og er hann farinn á vit nýrra ævintýra í Frakklandi.

Selfoss lék því án þessara lykilpósta í fyrsta leik sl. fimmtudag gegn Hamri. Leikmannahópurinn er þéttur og þrátt fyrir tap var það ekki fyrr en á síðustu mínútunum sem skildi á milli. Liðið lék mjög vel á löngum köflum, sérstaklega í 2. og 3. leikhluta, og sýndi að það verður í vetur sýnd veiði en ekki gefin, að ekki sé talað um þegar liðið verður fullskipað.

En það eru líka jákvæðar fréttir af leikmannamálum. Fyrst skal nefna að Adam Smári Ólafsson er kominn aftur til liðsins eftir tveggja ára dvöl hjá Vestra. Hann er félagsbundinn Haukum en spilar með Selfossi á venslasamningi. Adam er gríðarlega duglegur og námfús miðherji sem á eftir að láta til sín taka.

Í annan stað má greina frá því að á sunnudaginn kom til okkar nýr Bandaríkjamaður, Michael Rodriguez að nafni. Þetta er smár en knár bakvörður sem ætlað er það hlutverk að styðja við og leiðbeina okkar ungu leikstjórnendum.