Stelpurnar í minnibolta 11 ára gerðu aldeilis góða ferð til Hafnarfjarðar um helgina og komu kátar, brosmildar og ósigraðar heim, með unninn riðil undir hendinni. Gerir aðrar betur!!!

Þetta var önnur umferð á Íslandsmótinu og leikið á heimavelli Hauka á Ásvöllum. Stelpurnar okkar spiluðu í D2-riðli og þær unnu alla leikina mjög örugglega, alla með meira en 20 stiga mun.

Það sem skiptir þó meira máli er að þær sýndu að æfingarnar skila árangri, framfarirnar miklar bæði í sóknar- og varnarleik.

Einnig er afar ánægjulegt að fjölgun hefur verið í hópnum undanfarið og nokkrar stelpur voru að spila á sínu fyrsta körfuboltamóti.

Stelpurnar færast nú upp um deild og spila í C-riðli þegar 3. umferð fer fram í lok janúar nk.

Það er Trausti Jóhannsson sem þjálfar stelpurnar, og reyndar meira og minna alla yngri stúlknaflokkana okkar, og hefur gert undanfarin ár. Það er ekki nógsamlega þakkað að hafa úrvalsþjálfara með ungviðið, og ekki nóg gert af því að halda starfi þeirra á lofti. Það er mikið þolinmæðisverk að byggja upp frá grunni og Trausti hefur unnið frábært starf við að leggja grunn að kvennakörfubolta á Selfossi, auk þess að leggja gjörva hönd á plóg fyrir félagið í ýmsum sjálfboðaliðastörfum.

Meðfylgjandi mynd var tekin í dag að móti loknu, en á myndina vantar Telmu Gerði Birkisdóttur.