Selfoss tók á móti Skallagrími í kvöld í 12. flokki pilta og sigraði 82 – 76. Selfoss hefur unnið alla 14 leiki sína í þessum aldursflokki í vetur, sem er auðvitað aldeilis ágætt, ekki síst þegar það er haft í huga að liðið er að langmestu skipað leikmönnum úr 11. flokki, en aðeins einn leikmaður var í liðinu í kvöld sem er genginn upp úr 11. flokki. Margir fá þarna mikilvægt tækifæri til að keppa á móti sér eldri drengjum, þroska sig og og bæta.

Þetta var skemmtilegur leikur og bæði lið sýndu góða takta; skemmtilegt samspil og flott einstaklingsframtak var í ágætri blöndu. Selfoss var yfir nánast allan leikinn, oftast var munurinn um 10 stig, en í fjórða leikhluta komst Selfoss nálægt 20 stigum yfir og leit út fyrir öruggan sigur.

En Skallagrímur beit frá sér og minnkaði muninn hratt. Svolítill flumbrugangur einkenndi sóknarleik Selfoss og einbeitingarskortur, tapaðir boltar og illa valin skot, gestirnir röðuðu á okkur þrigjastigakörfum á móti og minnkuðu muninn í aðeins 3 stig og þá var enn nóg eftir af leiknum fyrir Skallagrím til að „stela sigrinum“.

En lokasóknir þeirra gengu ekki upp og Selfoss skoraði þriggjastiga körfu sem breikkaði bilið nægilega til að það yrði ekki fyllt.

Næsti leikur 12. flokks er heimaleikur gegn ÍA í Gjánni miðvikudaginn 8. mars kl. 20:30. Um að gera að kíkja á þessa stórefnilegu stráka.

ÁFRAM SELFOSS!!!