B-lið drengjaflokks tók í gærkvöldi á móti Njarðvík í Vallaskóla. Leikurinn byrjaði nokkuð vel og sýndu okkar strákar í FSu oft á köflum fína takta í fyrsta leikhluta en um miðbik hans fóru strákarnir að kasta óþarflega mörgum boltum frá sér og misstu Njarðvík svolítið frá sér og var munurinn 7 stig að honum loknum. Áfram hélt þessi klaufagangur í öðrum leikhluta þar sem Njarðvík gekk á lagið og var komið með þægilega 18 stiga forystu í hálfleik, staðan 30-48. Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningnum þar sem óþarflega margir tapaðir boltar gáfu Njarðvík auðveldar körfur hinum megin. Þó komu okkar strákar ákveðnari til leiks og var allt annað að sjá baráttuna í þeim síðari. Við ofurefli var þó að etja að þessu sinni og þá gekk sérstaklega illa að stoppa Veigar Pál sem gerði 42 stig fyrir Njarðvík í leiknum. Leikurinn endaði að lokum 70-95. Líkt og í öðrum leikjum í upphafi tímabils vorum við sjálfum okkur verstir. Með færri töpuðum boltum og meiri baráttu í vörninni getur liðið okkar hæglega farið að stríða öðrum liðum í þessari deild.

Stigaskor FSu: Sigurður Dagur 23 stig, Jakob 14 stig, Sigurður Karl 10 stig, Sigmar 8 stig, Daníel 6 stig, Viktor 4 stig, Gísli 3 stig og Anthony 2 stig.