Englendingurinn Rhys Sundimalt hefur skráð sig í Körfuboltaakademíu Selfoss Körfu við FSu. Hann fylgir þar í fótspor landa síns, Alex Gager, eins og sjá má í nýlegri frétt hér á síðunni.

Báðir þessir strákar stefna hátt, að spila á skólastyrk við háskóla í USA í náinni framtíð, og það er mikil viðurkenning fyrir akademíuna okkar að svo metnaðarfullir strákar „utan úr heimi“ skuli einmitt velja hana, en ekki einhverja aðra af fjölmörgum vel metnum akademíum sem strafræktar
eru víða  í Evrópu – og um heim allan.

Rhys Sundimalt er á tuttugasta aldursári, 187 sm klókur bakvörður, góður með boltann og ógnandi af þriggjastiga færi. Hann er mikill íþróttamaður, sterkur í vörn og með góðan leikskilning, sem kemur ekki síst fram í stoðsendingum eftir gegnumbrot.

Rhys var einn aðalmótorinn í einni af bestu akademíum Englands á síðasta skólaári og framfarir hans þá eru góður vitnisburður um vinnusemi hans og metnað – og þá góðu kennslu og þjálfun sem hann naut þar.

Selfoss Karfa fagnar komu þessa ljúfa drengs og býður hann velkominn á Selfoss.

Meðfylgjandi er krækja á sýnishorn úr leikjum með Rhys Sundimalt.