Í leik Selfoss og Álftaness í kvöld bar fegurðin kannski ekki kappið ofurliði en kappið var samt sem áður bæði fagurt og heiðarlegt af beggja hálfu. Þetta var jafn og spennandi leikur þar sem bæði lið áttu sína spretti, gestirnir í fyrri hálfleik, þegar þeir náðu mest 10 stiga forystu, en heimamenn í seinni hálfleik með 21 stigs sveiflu og 11 stiga forskoti í fjórða leikhluta. Sá varð og munurinn í lokin, 11 stiga sigur Selfoss, 70-59.

Eins og úrslitin bera með sér var ekki um að ræða íðilfagran sóknarleik. Leikurinn fór afar rólega af stað og lítið gekk á báða bóga sóknarlega. Eftir sex mínútur var staðan sex sex. Þá tók Samuel Prescott til sinna ráða og raðaði niður körfum fyrir Álftnesinga, vörnin vægast sagt hriplek hjá Selfossliðinu. En eftir að það lenti 10 stigum undir snemma í öðrum leikhluta fór loks að ganga betur á sóknarhelmingi, klaufamistökum fækkaði og skot fóru að rata rétta leið. Selfoss jafnaði 28-28 eftir 17 mínútna leik, komst síðan yfir 31-30 og hélt forystunni þaðan í frá til leiksloka.

Tímamót urðu snemma í 4. leikhluta. Í stöðunni 48-45 skoraði Selfoss 8 stig gegn engu á aðeins einni mínútu og þó Álftanes næði að minnka það 11 stiga forskot niður í 5 stig þegar 2 mín. voru eftir af leiknum þá hélt hið bráðunga Selfosslið velli og vel það, vann síðust mínúturnar 7-1 og leikinn 70-59 sem fyrr greinir. Vel gert hjá strákunum, og frammistaðan í beinu, rökréttu framhaldi af síðasta leik í Hornafirði.

Það er ekki til að draga úr ánægjulegri framför liðsins að miðherji þess, Maciek Klimaszewski, var fjarverandi vegna meiðsla í báðum síðustu sigurleikjunum og annar byrjunarliðsmaður, Ragnar Magni Sigurjónsson, missti af leiknum í kvöld af sömu ástæðum. Aðrir leikmenn nýttu færið og „stigu upp“ og ber helst að nefna í því sambandi þá Rhys Sundimalt og Pál Ingason sem áttu báðir afbragðsleik í kvöld.

Selfossliðið hafði vinninginn í nánast öllum tölfræðiþáttum, skotnýtingu, fráköstum, stoðsendingum, stolnum boltum og framlagi. Vítanýting liðsins er hinsvegar áhyggjuefni, aðeins 65% í leiknum og engin von til þess að vinna liðin í efri helmingi deildarinnar með slíkri frammistöðu af vítalínunni.

Fyrir gestina var Prescott mjög öflugur í fyrri hálfleik, skoraði þá 15 stig, en minna fór fyrir honum í síðari hálfleik. Hann endaði leikinn með 21 stig, 9 fráköst og 14 framlagspunkta. Dúi Þór Jónsson lék vel, skoraði 13 stig, tók 8 fráköst og fiskaði 8 villur á Selfyssinga. Brynjar Magnús skoraði 10 stig, Þorgeir Blöndal 7, Grímkell Orri 5 og Vilhjálmur Kári 3 stig. Þetta eru meira og minna kornungir strákar sem bera hitann og þungann í Álftanessliðinu, efnispiltar.

Rhys Sundimalt átti sinn besta leik fyrir Selfoss hingað til. Eftir brösuga byrjun náði hann sér heldur betur á strik og sýndi frábæra takta, ekki síst með því að klára erfið færi eftir gegnumbrot og ágætum varnarleik. Hann var stigahæstur með 21 stig, tók 5 fráköst og skilaði 13 punktum.

Cunningham var að venju öflugur í vörn og undir körfunum en nýtingin ekki upp á hans besta. Vel má samt „sætta sig við“ 11 stig, 20 fráköst og 22 framlagspunkta.

Kristijan var næst framlagshæstur með 18 punkta. Hann var góður í kvöld, skoraði 13 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Páll Ingason steig heldur betur upp í fjarveru Ragnars Magna. Hann setti 10 stig, nýtti 75% skota utan af velli og bæði vítin, og kórónaði góðan leik  með 5 fráköstum.

Sigmar Jóhann kom líka sterkur inn, en hann er nýbyrjaður að taka fullan þátt í æfingum eftir aðgerð fyrr í haust. Sigmar setti 8 stig og tók 8 fráköst og lét finna fyrir sér í vörninni. Arnór Ívars. gerði vel, ekki síst í lok leiks þegar mest þurfti á að halda, skoraði 5 stig. Svavar Ingi byrjaði vel en lenti fljótt í villuvandræðum, skoraði 2 stig.

Á sama hátt og í frásögn af síðasta leik ber að geta þess að bekkurinn var líflegur og hvetjandi og er það, að mati ritara, stór hluti af framförum liðsins. Sigurhefð verður ekki sköpuð nema allir taki virkan þátt. Þetta unga lið getur þannig látið til sín taka og gert ýmsa góða hluti.

Áfram SELFOOOOOS!!!

Tölfræðin