Selfoss/Hamar tryggði sér í dag rétt til að leika til úrslita um deildarmeistaratitilinn í 2. deild 9. flokks drengja með því að leggja KR b að velli á heimavelli sínum í Gjánni á Selfossi. Í úrslitum mæta strákarnir annað hvort b liði Stjörnunnar eða Keflavík, en þau lið mætast í hinum undanúrslitaleiknum á þriðjudaginn kemur, 3. maí.

Leikurinn í dag var all jafn og spennandi. Okkar menn hittu ekki á sinn besta dag og fyrri hálfleikur var hnífjafn, KR einu stigi yfir í hálfleik. Strax í upphafi seinni hálfleiks tók Selfoss/Hamar frumkvæðið og hélt forskoti út leikinn. Ekki munaði miklu, lengst af um eða innan við 5 stigum.

En í fjórða leikhluta náði heimaliðið góðri skorpu og kom muninum yfir 10 stigin, sem reyndist þungt á metunum. KR gerði vel og minnkaði muninn en tókst ekki að ógna sigri Sunnlendinga, sem hertu vörnina og náðu nokkrum auðveldum körfum úr hraðaupphlaupum sem tryggðu í lokin nokkuð öruggan sigur.

Liðið tapaði bara einum leik í deildakeppninni í vetur og endaði á toppnum og er því með heimavallarrétt allt til loka móts. Nú hefur það bætt í sarpinn tveimur sigrum í úrslitakeppni, í 8 og 4 liða úrslitum.

Úrslitaleikurinn fer fram einhvern daginn frá 11. – 15. maí og verður sagt frá því hér þegar leikdagur og tími liggur fyrir.

ÁFRAM SELFOSS/HAMAR!!!