Það er gaman frá því að segja að í úrslitum NBA um þessar mundir leikur stórt hlutverk einn af  „vinum Selfoss“.  Þetta er Duncan Robinson, byrjunarliðsmaður í Miami Heat. Robinson kom eiginlega bakdyramegin inn í NBA, og lýsendur þar vestra þreytast ekki á að láta vita af því að hann komi úr 3. deildar skóla og ekki í gegnum nýliðavalið, sé það sem þeir kalla „undrafted“.

Robinson var í æfingabúðum hjá Akademíu FSu á Selfossi árið 2015 með skólaliði sínu og þjálfarateymi. Þar var einnig einn af núverandi leikmönnum Selfoss, Svavar Ingi Stefánsson, en þeir félagar eru einmitt jafnaldrar, báðir fæddir 1994 og því 26 ára gamlir.

Robinson er, eins og áhugamenn vita, orðinn að einni albestu skyttunni sem nú er á dögum og virkilega gaman að fylgjast með honum á vellinum, ekki síst hvernig hann hreyfir sig án bolta, og er góð stúdía fyrir unga sem aldna að fylgjast með honum í leik.

Á meðfylgjandi mynd sést Robinson, í rauðri hettupeysu, með félögum sínum framan við Hamborgarabúlluna og Árvirkjann á Selfossi fyrir aðeins rúmum 5 árum.