Selfossliðið mætti nokkuð laskað til leiks á heimavelli sínum í kvöld gegn toppliði Hauka. Gerald er enn utan vallar og annar byrjunarliðsmaður, Ísar Freyr, einn besti varnarmaður liðsins, gengur við hækjur eftir ökklameiðsli í unglingaflokksleik. Í leikmannahópnum voru tveir 16 ára og einn 14 ára, stórefnilegir strákar, ásamt nokkrum 18 og 20 ára. En það voru „öldungarnir“ í liðinu, 25 og 26 ára gamlir, sem leiddu liðið til eins stigs sigurs í spennuleik, 88-87.

Eftir 0-5 byrjun hóf Selfossliðið leik og komst í 16-11 um miðjan fyrsta fjórðung. Eftir það var leikurinn í járnum fram í seinni hálfleik, Selfoss einu stigi yfir, 25-24, eftir fyrsta hluta en Haukar leiddu 46-47 í hálfleik. Selfoss lék hörmulega í upphafi seinni hálfleiks, tapaði mörgum boltum klaufalega og Haukar gengu á lagið og skoruðu margar auðveldar körfur. Eftir 5 mín. í þriðja var staðan orðin 49-63 og útlitið hreint ekki bjart. En strákunum til hróss gáfust þeir ekki upp heldur sóttu smám saman í sig veðrið og hófu síðasta leikhlutann 11 stigum undir, 58-69.

Um miðjan síðasta hluta var þetta orðinn leikur og þegar 3 mín voru eftir var Selfossliðið komið yfir, 81-77, og leiddi 85-80 þegar mínúta var eftir. Haukar settu snöggan þrist og munurinn 2 stig. Selfoss nýtti 3 af 4 bónusskotum á lokakaflanum, Haukar skoruðu tveggja stiga körfu og Jose Medina gat jafnað leikinn úr þremur vítum þegar 1,2 sek voru eftir. Hann klikkaði hins vegar á síðasta skotinu, boltinn fór á hringinn, í leikmenn og þaðan í gólfið nokkuð utan vallar, þannig að einhverjir töldu leiktímann örugglega liðinn. En dómararnir voru óvissir, fóru upp í stúku til að kíkja á upptökuna og komust að þeirri niðurstöðu að Haukar ættu innkast á endalínunni og 0,6 sek eftir. Lokatilraun þeirra mistókst hins vegar með öllu og Selfyssingar fögnuðu sigrinum innilega, enda meiriháttar byr í seglin fyrir liðsandann og sjálfstraustið að rísa upp úr öskustónni – og halda svo fengnum hlut í lokin gegn svo sterku liði. Þessar síðust sekúndur tóku tímann sinn, og á taugarnar, en áhorfendur fengu sitthvað fyrir sinn hlut.

Jose Medina og Jeremy Smith voru bestir Hauka en Shemar Bute og Emil Barja létu einnig til sín taka. Níu leikmenn komu við sögu og allir þeirra settu stig á töfluna.

Í Selfossliðinu voru „gamlingjarnir“ Trevon Evans og Gasper Rojko lykilmenn, báðir úrtökugóðir og réðu Haukar ekki við þá félaga. Trevon setti 34 stig og bætti skotnýtingu verulega frá fyrstu leikjunum, nýtti 53% skota og 10 af 14 vítum, fiskaði 10 villur og gaf 5 stoðsendingar, 29 framlagsstig. Gasper skoraði 31 stig,  og nýtti 77% skota, 4/5 í tveggja (80%) og 6/8 (75%) í þriggja, tók 6 fráköst og skilaði 33 framlagsstigum. Óli Gunnar fylgdi þeim félögum á hæla með 6 stig og 7 fráköst og spilaði frábæra vörn í teignum gegn mun stærri leikmanni, 14 framlagspunktar, takk fyrir.

Arnar Geir byrjaði með krafti og skoraði 8 stig strax í fyrsta hluta, þar af tvo flotta þrista, Vito skoraði 6 stig, Sigmar 3 og tók 3 fráköst.

Það er ekki annað hægt fyrir gamlan hund en að vera stoltur af strákunum sínum, að gefa Haukum alvöru leik, hvað þá að vinna hann. Sjálfsagt er að fagna og gleðjast en jafnframt að muna að liðið er í mótun og ef ekki allir eru með á nótunum, og báða fætur á jörðu, getur það einfaldlega líka tapað fyrir öllum liðunum í deildinni.

Næst er bikarleikur á mánudaginn kl. 19:15 gegn Íslandsmeisturunum, sem farið hafa frábærlega af stað í Subwaydeildinni, og væri gaman að sjá fulla stúku til að hvetja strákana í þvi erfiða verkefni.

Þar á eftir tekur deildarkeppnin aftur við með útileik gegn öflugu liði Umf. Hrunamanna á Flúðum, næstkomandi föstudag kl. 19:15.

ÁFRAM SELFOSS!!!