Selfoss vann öruggan sigur á vængbrotnu liði Sindra í gær, í annarri viðureign liðanna í 8 liða úrslitum 1. deildar karla, 86-65. Staðan er nú 1-1 og þriðji og úrslitaleikur liðanna framundan á föstudaginn kemur, 14. maí, um sæti í undanúrslitum um sæti í Dómínósdeildinni.

Selfoss leiddi allan leikinn, komst 22 stigum yfir eftir 14 mínútur, 34-12. En Sindri gafst ekki upp og drifið áfram af Gerald Robinson, sem sallaði niður hverjum þristinum af öðrum næstu mínútur, tókst honum að minnka muninn í 5 stig á 23. mínútu, 43-38. Þá tóku Selfyssingar við sér aftur og bilið breikkaði upp í þau 21 stig sem munaði í lokin.

Hjá gestunum var Robinson bestur með 24 stig og 11 fráköst, Haris Genjac setti 16 stig og hrifsaði 14 fráköst, Gísli Þórarinn 9 stig og Árni Birgir 8 stig og 7 fráköst. Það munaði um minna að leikstjórnandinn Gerard Blat Baeza var frá vegna meiðsla og bandaríski leikmaðurinn enn í leikbanni.

Sveinn Búi var allt í öllu í fyrri hálfleik hjá heimamönnum, hitti afburðavel og endaði með 24 stig og 5 fráköst, 20 frl.punkta. Í seinni hálfleik tók Kristijan við keflinu og fór á afarkostum. Hann setti 24 stig, tók 12 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 6 boltum. Ofan á þetta smurði hann þykku lagi af góðri skotnýtingu (5/8 í þristum, 3/3 í vítum) og endaði með 40 frl.punkta, hvorki meira né minna. Owen gerði vel með 9 stig, Kennedy bætti við 8 og 7 frk., Sigmar Jóhann 6, Terrance 4 og 6 frk., Svavar 4 stigum og 5 frk., Gunnar 3 st. og 3 frk. og Gregory 2 stigum.

Nú er það verkefni drengjanna að sýna hvað í þeim býr á útivelli í Ice-Lagoon höllinni á Höfn. Sigurtliðið í næstu viðureign mætir svo Hamri í næstu umferð úrslitakeppninnar, sem eru undanúrslit.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræði leiksins

Myndasafn Björgvins Valentínussonar