Selfossliðið gerði ágæta ferð í Borgarnes sl. föstudag og vann Skallagrím í 1. deild karla, úrslitin 82-87.

Þetta var jafn leikur, 27-27 seint í fyrsta fjórðungi, en Selfoss leiddi 31-32 að honum loknum, og allar götur úr því, vann raunar þrjá fjórðunga af fjórum. Í hálfleik munaði 11 stigum, 45-56, eftir góðan leik okkar manna, en í þriðja fjórðungi sneru heimamenn taflinu við og voru betri, hertu mjög á varnarleiknum og söxuðu niður forskotið þannig að munurinn fyrir síðsta kaflann var að eins 3 stig, 66-69.

Í fjórða hluta náði Selfoss mest 8 stiga forystu en Skallagrímur andaði í hálsmálið og lengst af var þetta einnar eða tveggja karfa leikur og ansi spennandi lokamínútur. Þar munaði mikið um fyrir Selfossliðið að Kennedy fór tvisvar á vítalínuna og setti niður öll fjögur vítin af miklu öryggi.

Keith Jordan var stigahæstur Borgnesinga með 27 stig og bætti við 8 fráköstum og 5 stolnum. Bergþór Ægir var þó framlagshæstur heimamanna með 20 punkta; 11 stig, 4 stoðsendingar, 6 fráköst og 100% nýtingu, úr öllum mögulegum færum. Björgvin bróðir hans skoraði 16, gaf 5 stoðsendingar og tók 11 fráköst, en nýtingin ekki jafn góð. Davíð skoraði 9 stig, Kristján Örn 8, Almar Örn 7, Ragnar Magni 3 og Orri Jónsson 1 stig.

Srdjan fór fremstur í flokki í Selfssliðinu, stigahæstur (24) og framlagshæstur (23) með 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Annars dreifðist framlagið vel á liðið okkar, allir 8 leikmennirnir sem spiluðu „gerðu gagn“ með jákvæða framlagstölu og eitthvað í flestum tölfræðiþáttum. Gerald skoraði 14 stig og tók 11 fráköst, Kennedy 14 stig, 5 fráköst og 50% skotnýtingu, Ísar Freyr var flottur með 12 stig og 17 framlagspunkta, Arnaldur 9 stig, Ísak 6 stig og 7 stoðsendingar, Birkir Hrafn 5 stig, 3 fráköst og glæsilega varið skot og Dusan 3 stig og 3 fráköst.

Það var betri andi og baráttuhugur í okkar mönnum en stundum áður og meiri liðsbragur sveif yfir vötnum, og enginn vafi að leikurinn datt okkar megin fyrir vikið. Megi það gott á vita fyrir framhaldið.

Næst bíður það verkefni að eiga við Ármenninga heima í Gjánni næstkomandi föstudag, 18. nóvember, en Ármenningar hafa farið glimrandi vel af stað í deildinni í haust, nýkomnir upp úr 2. deild og spennandi tímar framundan á þeim bænum, með afbragðs gott yngriflokkastarf.

ÁFRAM SELFOSS!!!