A-lið 11. flokks drengja spilaði tvo síðustu leiki sína í deildarkeppninni nýverið. Á sumardaginn fyrsta mættu strákarnir A-liði Stjörnunnar heima í Gjánni og töpuðu naumlega, 96 -101. Daginn eftir, föstudaginn 21.04. héldu þeir til Hafnarfjarðar, spiluðu gegn Haukum á Ásvöllum og unnu léttan sigur, 77 – 123.

Okkar menn lenda í þriðja sæti í 1. deild 11. flokks, þeir unnu 16 leiki en töpuðu 6, öllum þremur leikjunum gegn bæði Íslandsmeisturum ÍR og Stjörnunni. Aðra leiki vann liðið flesta með miklum mun og nokkuð skýrt að þetta eru þrjú bestu lið landsins í þessum aldursflokki.

Nú tekur við úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn og má ætla að aðalbaráttan standi milli ÍR og Stjörnunnar. Selfossliðið vantar herslumun til að standast þeim snúning, um það þarf ekki deilt eftir að hafa tapað fyrir þeim í öllum leikjum í vetur. En úrslitakeppni er úrslitakeppni og þá getur allt gerst. Um hæfileikana í okkar liði efast enginn, en það þarf fleira en meðfædda hæfileika til að vinna titla. Dugar ekkert „elsku mamma“ ef það á að takast!

Nú er tíminn til að herða járnið og bíta í skjaldarrendur.

ÁFRAM SELFOSS!!!