Selfoss fékk á baukinn gegn Breiðabliki í Smáranum í sl. mánudag. Breiðablik er besta liðið í deildinni og okkar menn hefðu þurft toppleik til að veita þeim einhverja keppni. Því miður vantaði mikið upp á það, allan karakter í liðið og því fór sem fór. Eftir fyrsta hluta munaði 5 stigum, 28-23 og í hálfleik 20 stigum, 58-47. Enn bætti Breiðablik í og eftir 27 mínútur munaði 30 stigum, 76-46, úrslitin ráðin og lokatölur 107-79.

Segja má að þetta sé fyrsti og eini leikurinn í vetur þar sem liðið er með „allt niður um sig“. Þó margir leikir hafi tapast á síðustu mínútunum hafa strákarnir staðið sig vel, haldið í við og jafnvel haft yfirhöndina, líka gegn toppliðunum, langt fram í síðasta leikhluta. Nú varð hins vegar nokkurs konar  brotlending og bera leiðtogar liðsins ábyrgð á því fyrst og fremst.

Breiðablik er vel spilandi lið með mikla breidd, sem m.a. sýnir sig í því að 8 leikmenn skoruðu 9 stig eða meira og það var skiljanlega betra í öllum tölfræðiþáttum – nema töpuðum boltum, 11/16 Selfossi í hag.

Sveinn Búi (14, 55% skotn.) og Gunnar Steinþórs (12, 6 frk.) voru framlagshæstir Selfyssinga, þá Svavar Ingi (11), Kennedy (11, 6 frk.), Arnór Bjarki (10, 4/7 í þristum) og Kristijan (7).

Það jákvæða var að allir leikmenn Selfoss fengu sitt tækifæri og hinn 17 ára Benjamín Kjartansson kom inn á í fyrsta leik sínum í meistaraflokki. Þeir eiga eftir að verða fleiri.

Selfossliðið hefur vikuna til að hysja upp um sig og mæta andlega tilbúið í næsta leik á föstudaginn kemur gegn Fjölni í Gjánni kl. 19:15.

Tölfræðin úr leiknum