Unglingaflokkur spilaði tvo leiki nýverið, og skiptist í tvö horn með gengið.

Fyrst mætti liðið Ármanni, heima í Gjánni miðvikudaginn 22. febrúar sl. og sigraði nokkuð örugglega, 95-78. Þetta var skemmtilegur leikur fyrir strákana, mjög gott flæði í sóknarleiknum lengst af og fínt tækifæri til að vinna í sóknarleik gegn 2-3 svæðisvörn, sem Ármenningar spiluðu allan tímann. Í heildina var ákvarðanataka okkar stráka góð, fínt jafnvægi milli skota fyrir utan og gegnumbrota upp að körfunni. Svo mikil var óeigingirnin að á köflum urðu sendingar of margar og liðið gaf fyrir vikið frá sér upplögð færi fyrir önnur verri.

Liðið okkar byrjaði af miklum krafti en slakaði svo full mikið á í vörninni í þriðja leikhluta, sem kostaði of mörg sóknarfráköst og opin skot, auk þess sem hittnin dalaði. Ármann minnkaði muninn í 9 stig en komst ekki nær, því strákarnir náðu sér aftur á strik með öflugri vörn og hröðum skyndisóknum og unnu að lokum með 17 stigum.

Björn Ásgeir var stigahæstur, skoraði 33 stig, Elvar Ingi 23, Arnór Bjarki 18, Páll Ingason 9, Arnar 6, Aron 4 og Orri 2 stig.

Síðan mætti liðið Haukum á útivelli í gær, sunnudaginn 24. febrúar. Þetta var leikur tveggja gerólíkra hálfleika. Frábær fyrri hálfleikur, fullur af orku, góðum samskiptum og baráttu. Í leikhléi munaði aðeins 5 stigum á liðunum. Annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Við vorum þunnskipaðir, aðeins 6 mættu, en leikmenn verða að læra að spila einbeittir og gleyma þreytunni þegar á hallar. Opin skot sem fóru forgörðum og vafadómar sem féllu Haukum í hag drógu alla orku úr mönnum og heimaliðið nýtti það til hins ýtrasta.

Það var einkum þrennt sem varð okkur að falli. Í fyrsta lagi fráköstin. Það vantaði bæði  áræðni að sækja sóknarfráköst og staðfestu til að stíga út sem kostaði allt of mörg sóknarfráköst andstæðinganna. Í öðru lagi vantaði allt sóknarflæði í seinni hálfleik og í þriðja lagi vantaði baráttu til að sækja 50/50 boltana. Niðurstaðan varð 31 stigs tap, 97-66.

Björn Ásgeir var langatkvæðamestur með 40 stig, Orri Ellerts skoraði 11, Arnór Bjarki 8, Arnar Dagur 4 og Sigurður Dagur 3 stig.