Selfossliðið hélt landveginn til Akureyrar í gær, mánudag, og mætti þar heimamönnum í Þór í 1. deild karla. Mestmegnis var skyggni ágætt og færðin góð og ekki fyrr en seinni hluta ferðar, í Langadalnum, sem gekk á með éljum og skafrenningi á hálum veginum. Síðasta hluta leiðarinnar birti til og allt gekk að óskum á áfangastað. Leikurinn endurspeglaði ferðalýsinguna mjög svo, en eftir að hafa misst góða forystu niður í 6 stig minnst, í „Langadalnum“, náði Selfossliðið aftur vopnum sínum og vann örugglega, 84 – 103.

Þór skoraði fyrstu körfuna, 3-0 en Selfoss setti næstu tvær, 3-5. Þór jafnaði 5-5 en þaðan í frá hélt Selfoss forystu til loka leiks. Fimmtán stigum munaði í hálfleik, 28-43, og vel fram í 4. leikhluta var munurinn þetta frá 12 – 16 stig, mest 18 snemma í 3. leikhluta. En alltaf þegar Selfoss myndaðist við að „klára dæmið“ með kraftmiklum kafla, þá komu Akureyringar í bakið á þeim og söxuðu muninn langleiðina niður að 10 stiga múrnum. Og þegar heilar meira en 4 mínútur voru eftir var munurinn allt í einum orðinn 6 stig, 80 – 86, og nægur tími fyrir heimamenn að „stela sigrinum“. Það tókst þeim þó ekki og nokkrir tapaðir boltar léttu af Selfossliðinu mestu pressunni og munurinn jókst aftur á lokakaflanum.

Arturo Fernandez Rodriguez var allt í öllu í sóknarleik Þórs, skoraði meira en helming stiga liðsins, eða 47 af 83, stal 3 boltum og fiskaði hvorki fleiri né færri en 15 villur en 8 tapaðir boltar skáru framlagspunktana niður í 36, sem er nóg samt. Það var hans „einkasýning“ sem gaf Þór vonarglætu í síðasta fjórðungi, en Selfossvörnin réði bara ekkert við hann á þeim kafla. Baldur Örn var eini  Þórsarinn, annar en Rodriguez, sem náði tveggjastafatölu í stigaskori, en hann setti 18 stig, og tók að auki 11 fráköst. Smári Jónsson skoraði 8 stig og tók 6 fráköst, Toni Cutuk var með 5 stig og 9 fráköst, Hlynur Freyr 3 stig og 5 stoðsendingar, Andri Már 2 stig og Hákon Hilmir 1 stig.

Selfoss mætti til leiks með 9 leikmennn og allir tóku þátt, nema Skarphéðinn Árni, sem kenndi sér meins í hné í upphitun. Það var annar bragur á Selfossliðinu nú en í fyrsta leik ársins um daginn gegn Sindra, þegar enginn hitti neitt. Nú var skotnýtingin 60% af styttra færinu og 49% af þriggjastigafæri, sem er með ágætum. Þar fóru fremstir „pjakkarnir“, Styrmir Jónasar með 75% nýtingu og Birkir Hrafn 71%, þar af 100%, 4/4, í þriggjastigaskotum, hvorki meira né minna (getur reyndar ekki verið meira). Báðir stóðu þeir sig með mikilli prýði, Birkir skoraði 15 stig og Styrmir 7. Gerald og Arnaldur voru stigahæstir með 23 stig hvor, „sá gamli“ með 44% þriggjastiganýtingu og Arnaldur 42% og báðir með yfir 20 framlagspunkta. Kennedy var framlagshæstur liðsmanna með 27 punkta og líka hæsta +/- gildið (20), skoraði 21 stig og tók 5 fráköst. Ísak Júlíus settti 9 stig og gaf 12 stoðsendingar, auk þessa að stela 4 boltum, og Ísar Freyr var sterkur varnarlega, skoraði 4 stig og tók 7 fráköst, deildi toppsætinu þar með Gerald. Sigmar Jóhann setti það stig sem upp á vantar.

Það sem helst má gagnrýna í leik liðsins voru fráköstin, en þar höfðu Akureyringar betur, og fengu því óþarflega mörg tækifæri til að skora, sem Arturo nýtti sér gjarnan. Margar stoðsendingar og t.t.l. fáir tapaðir boltar voru á móti mjög jákvæð teikn. Það má segja að liðið hafi aftur fundið áttirnar eftir að hafa villst af leið um daginn, og það er víst með að vinna fleiri leiki fram á vorið, þrátt fyrir að vera ungmennaflokkur + 1, og nánast eina liðið í deildinni sem ekki hefur bætt við sig erlendum leikmanni eftir að tímabilið hófst, heldur þvert á móti fækkað þeim. Það er ánægjuefni, enda stór hópur af heimaplöntuðum sprotum sem bíða þess að skjóta upp kollinum.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Hamri frá Hveragerði næstkomandi mánudag, 23. janúar. Athugið að leikurinn hefst kl. 18:00 en ekki 19:15 eins og vant er.  ÁFRAM SELFOSS!!!

 

Tölfræðin

Staðan í deildinni

Myndir: Jónas Ottósson