Sunnudaginn 18. nóvember fór stúlknaflokkur í heimsókn til Keflavíkur. Búist var við hörkuleik þar sem lið Keflavíkur hafði unnið alla sína leiki á tímabilinu. Fyrsti leikhluti var mjög jafn og spennandi þar sem liðin skiptust á að skora og var minna um varnarleik. Áfram hélt baráttan í öðrum leikhluta og í honum skiptust liðin á að gera áhlaup. Staðan í hálfleik var 38-35 heimastúlkum í vil. Í síðari hálfleik fór sóknarleikur okkar stúlkna að hiksta og ekki bætti úr skák að hvert sniðskotið á fætur öðru geigaði. Heimastúlkur gengu á lagið og náðu góðu forskoti fyrir síðasta leikhlutann og var fjórði leikhluti nokkuð þægilegur fyrir Keflavík sem sigraði að lokum 76-55. Sem dæmi um ströggl í sókninni má nefna að stelpurnar skoruðu meira í fyrsta leikhluta en öllum síðari hálfleik.

Næsti leikur er á fimmtudaginn kemur hér á Selfossi og vonumst við til þess að sjá marga áhorfendur á þeim leik þar sem stelpurnar eru staðráðnar í að sýna sitt rétta andlit.

Stigaskor FSu: Dagrún 19 stig, Helga 12 stig, Una 11 stig, Perla 6 stig, Gígja 3 stig, Hrafnhildur og Margrét 2 stig hvor.